Print Section
22
Fjórmenningur (einnig þekkt sem slegið til skiptis)
Tilgangur reglu: Regla 22 fjallar um fjórmenning (sem er ýmist leikinn sem holukeppni eða höggleikur), þar sem tveir samherjar keppa saman sem lið með því að slá einn bolta til skiptis. Reglurnar fyrir þetta leikform eru að grunni til þær sömu og í einstaklingskeppni, nema að samherjarnir þurfa að slá teighögg til skiptis til að hefja leik á holu og ljúka síðan holunni með því að slá til skiptis.
22
Fjórmenningur (einnig þekkt sem slegið til skiptis)
22.1

Yfirlit um fjórmenning

Fjórmenningur (einnig þekkt sem slegið til skiptis) er leikform með samherjum (annaðhvort í holukeppni eða höggleik) þar sem tveir samherjar keppa sem lið og leika einum bolta til skiptis á hverri holu. Reglur 1-20 gilda í þessu leikformi (þar sem lið sem leikur einum bolta er meðhöndlað á sama hátt og stakur leikmaður), en með þeim frávikum sem hér koma fram. Afbrigði þessa er form holukeppni sem kallast þrímenningur þar sem stakur leikmaður keppir gegn liði tveggja samherja sem leika til skiptis samkvæmt þessum sérreglum. 
22.2

Hvor samherji má koma fram fyrir liðið

Þar sem báðir samherjarnir keppa sem eitt lið með einungis einum bolta:
  • Má hvor samherjinn sem er aðhafast fyrir hönd liðsins allt sem leyfilegt er áður en högg er slegið, svo sem að merkja staðsetningu bolta, lyfta, leggja, leggja aftur eða láta bolta falla, óháð því hvor samherjanna á að leika næst fyrir liðið.
  • Samherji og kylfuberi hans mega aðstoða hinn samherjann á alla þá vegu sem kylfuberi hins samherjans má aðstoða (svo sem að gefa ráð eða óska eftir ráðleggingu og framkvæma allar athafnir sem leyfðar eru samkvæmt reglu 10), en mega ekki aðstoða á neinn þann hátt sem kylfubera hins samherjans er bannað.
  • Sérhver athöfn eða reglubrot annars hvors samherjans eða kylfubera þeirra nær til liðsins.
Í höggleik þarf aðeins annar samherjanna að staðfesta skor liðsins á holunum á skorkortinu (sjá reglu 3.3b).
22.3

Samherjar verða að slá til skiptis

Á hverri holu verða samherjarnir að slá högg liðsins til skiptis:
  • Samherjarnir verða að skiptast á um að slá fyrsta högg liðsins á teig hverrar holu. 
  • Eftir fyrsta högg liðsins af teig á holu verða samherjarnir að slá högg til skiptis það sem eftir er holunnar.
  • Ef högg er afturkallað eða gildir ekki samkvæmt einhverri reglu (nema þegar högg er slegið í rangri röð, andstætt þessari reglu) verður sami samherjinn og sló höggið að slá næsta högg fyrir liðið.
  • Ef liðið ákveður að leika varabolta verður samherjinn sem á að slá næsta högg liðsins að leika honum.
Vítahögg sem liðið hlýtur hafa ekki áhrif á röð samherjanna við að slá högg til skiptis. Víti fyrir að slá högg í rangri röð í andstöðu við reglu 22.3: Almennt víti. Í höggleik verður liðið að leiðrétta mistökin:
  • Rétti samherjinn verður að slá högg þaðan sem liðið sló fyrsta höggið í rangri röð (sjá reglu 14.6).
  • Höggið sem var slegið í rangri röð og öll áframhaldandi högg þar til mistökin eru leiðrétt (bæði slegin högg og vítahögg beinlínis vegna leiks þess bolta) gilda ekki.
  • Ef liðið leiðréttir ekki mistökin áður en það slær högg til að hefja leik á annarri holu eða, þegar um síðustu holu umferðarinnar er að ræða, áður en það skilar skorkorti sínu, fær liðið frávísun.
22.4

Að hefja umferðina

22.4a

Samherji sem leikur fyrst

Liðið má ákveða hvor samherjanna leikur af fyrsta teig þegar umferðin er hafin, nema keppnisskilmálar kveði á um hvor samherjinn verði að leika fyrst. Umferð liðsins hefst þegar sá samherji slær högg til að hefja leik liðsins á fyrstu holu.
22.4b

Rástími og rásstaður

Reglu 5.3a er beitt á ólíkan hátt gagnvart hvorum samherja, eftir því hvor á að leika fyrst fyrir liðið: Samherjinn sem mun leika fyrst verður að vera tilbúinn til leiks á rástímanum og rásstaðnum og verður að hefja leik á rástímanum (og ekki fyrr). Samherjinn sem mun leika næstur verður að vera mættur á rástímanum, annaðhvort á rásstaðnum eða á holunni nærri þeim stað þar sem gert er ráð fyrir að boltinn sem leikið er af teignum muni stöðvast. Ef annar hvor samherjanna er ekki mættur samkvæmt framansögðu fær liðið víti fyrir brot á reglu 5.3a.
22.5

Samherjar mega deila kylfum

Reglu 4.1b(2) er breytt til að leyfa samherjum að deila kylfum, svo fremi að heildarfjöldi kylfanna sem þeir deila sé ekki meiri en 14.
22.6

Takmarkanir á að leikmaður standi aftan við samherja þegar högg er slegið

Til viðbótar þeim takmörkunum sem settar eru í reglu 10.2b(4) má leikmaður ekki standa á eða nærri framlengingu leiklínunnar aftan við boltann þegar samherji hans er að slá högg, til að öðlast upplýsingar um næsta högg liðsins. Víti fyrir brot á reglu 22.6: Almennt víti.
EXPLORE MORE
Rule 1Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
Tilgangur reglu: Í reglu 1 er eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins lýst: Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggu...
Read more