Print Section
21
Önnur form höggleiks og holukeppni einstaklinga
Tilgangur reglu: Regla 21 fjallar um fjögur önnur leikform í keppni einstaklinga, þar á meðal þrjú form höggleiks þar sem skor ákvarðast á annan hátt en í venjulegum höggleik: Stableford (skor ákvarðast af punktum á hverri holu), hámarksskor (hámark er sett á skor hverrar holu) og par/skolli (skor samkvæmt holukeppni er notað á hverri holu).
21
Önnur form höggleiks og holukeppni einstaklinga
21.1

Stableford

21.1a

Yfirlit um Stableford

Stableford er afbrigði höggleiks þar sem:
  • Skor leikmanns eða liðs á holu ræðst af áunnum punktum, með því að bera höggafjölda leikmannsins eða liðsins á holunni (þ.e. slegin högg og vítahögg) við fast viðmiðunarskor á holunni, sem nefndin ákvarðar, og
  • Sigurvegari keppninnar er sá leikmaður eða það lið sem lýkur öllum umferðum með flestum punktum.
Venjulegar reglur um höggleik í reglum 1-20 gilda, með þessum sérreglum. Regla 21.1 á við um:
  • Keppnir án forgjafar, en má aðlaga forgjafarkeppnum, og
  • Leik einstaklinga, en má aðlaga fyrir keppni samherja, samanber aðlaganir í reglum 22 (fjórmenningur) og 23 (fjórleikur), og fyrir sveitakeppnir, samanber aðlaganir í reglu 24.
21.1b

Skor í Stableford

(1) Hvernig punktar eru ákvarðaðir. Leikmaður vinnur sér inn punkta á hverri holu með því að bera skor sitt saman við fast viðmiðunarskor á holunni, sem er par nema nefndin ákveði annað fast viðmiðunarskor:
Hola leikin áPunktar
Meira en einu höggi yfir föstu skori eða engu skori er skilað0
Einu höggi yfir föstu skori1
Föstu skori2
Einu höggi undir föstu skori3
Tveimur höggum undir föstu skori4
Þremur höggum undir föstu skori5
Fjórum höggum undir föstu skori6
Leikmaður sem af einhverjum ástæðum leikur ekki í holu samkvæmt reglunum fær engan punkt á holunni. Til að flýta leik eru leikmenn hvattir til að hætta leik á holu þegar skor þeirra mun leiða til núll punkta. Holunni er lokið þegar leikmaðurinn leikur í holu, velur að leika ekki í holu eða þegar skor hans mun leiða til núll punkta. (2) Skor skráð fyrir hverja holu. Til að uppfylla kröfur í reglu 3.3b um að skrá skor hverrar holu á skorkortið:
  • Ef holu er lokið með því að leika í holu.
    • Þegar skorið myndi leiða til þess að leikmaðurinn fengi punkta. Skorkortið verður að sýna raunverulegan höggafjölda.
    • Þegar skorið myndi leiða til núll punkta. Skorkortið verður að sýna hvort heldur sem er ekkert skor eða hvaða höggafjölda sem er sem leiðir til þess að leikmaðurinn fær núll punkta.
  • Ef holu er lokið án þess að leika í holu. Leiki leikmaðurinn ekki í holu á réttan hátt samkvæmt reglunum má vanta skor á skorkortið eða það sýna eitthvert skor sem leiðir til núll punkta.
Nefndin er ábyrg fyrir að reikna hversu marga punkta leikmaðurinn fær á hverri holu og, í keppni með forgjöf, að beita forgjafarhöggum á skor hverrar holu áður en punktafjöldi er reiknaður. Sjá Verklag nefnda, hluta 5A(5)  (í keppnisskilmálum má hvetja leikmenn til að skrá einnig punktafjölda hverrar holu á skorkortið. Slíkt má þó ekki gera að skyldu).
21.1c

Víti í Stableford

Öll víti sem eiga við í höggleik eiga einnig við í Stableford, nema  að leikmaður sem brýtur einhverja af eftirfarandi fimm reglum fær ekki frávísun heldur núll punkta á holunni þar sem brotið átti sér stað:
  • Ekki leikið í holu samkvæmt reglu 3.3c.
  • Mistök ekki leiðrétt þegar leikið er utan teigsins við að hefja leik á holu (sjá reglu 6.1b(2)).
  • Mistök ekki leiðrétt þegar röngum bolta er leikið (sjá reglu 6.3c).
  • Mistök ekki leiðrétt þegar leikið er af röngum stað og um alvarlegt brot er að ræða (sjá reglu 14.7b), eða
  • Mistök ekki leiðrétt þegar högg eru slegin í rangri röð (sjá reglu 22.3). 
Brjóti leikmaðurinn einhverja aðra reglu þar sem viðurlögin eru frávísun fær leikmaðurinn frávísun. Eftir að vítahöggum hefur verið beitt getur Stableford punktafjöldi leikmanns á holu ekki verið minni en núll.
21.1d

Undantekning við reglu 11.2 í Stableford

Regla 11.2 á ekki við undir þessum kringumstæðum: Ef bolti leikmanns er á hreyfingu og þarf að hafna í holu til að leikmaðurinn fái einn punkt á holunni og einhver vísvitandi sveigir boltann úr leið eða stöðvar hann þegar engar raunhæfar líkur eru á að boltinn geti hafnað í holu er það vítalaust gagnvart þeim einstaklingi og leikmaðurinn fær núll punkta á holunni.
21.1e

Hvenær umferð lýkur í Stableford

Umferð leikmanns lýkur þegar leikmaðurinn:
  • Leikur í holu á síðustu holu sinni (þar á meðal með því að leiðrétta mistök, svo sem samkvæmt reglu 6.1 eða 14.7b), eða
  • Velur að leika ekki í holu á síðustu holunni eða getur ekki lengur fengið neinn punkt á holunni.
21.2

Hámarksskor

21.2a

Yfirlit um hámarksskor

Hámarksskor er leikform í höggleik þar sem skor leikmanns eða liðs á holu er takmarkað við hámarks höggafjölda sem nefndin hefur ákveðið, svo sem tvöfalt par, fasta tölu eða nettó skramba. Venjulegar reglur um höggleik í reglum 1-20 gilda, en með þeim breytingum sem koma fram í þessari reglu. Regla 21.2 á við um:
  • Keppni án forgjafar, en hana má einnig aðlaga forgjafarkeppnum, og
  • Einstaklingskeppni, en hana má aðlaga fyrir keppni samherja með þeim frávikum sem eru í reglum 22 (fjórmenningur) og 23 (fjórleikur), og fyrir sveitakeppnir með þeim frávikum sem eru í reglu 24.
21.2b

Skor í hámarksskori

(1) Skor leikmanns á holu. Skor leikmanns á holu byggist á höggafjölda leikmannsins á holunni (þ.e. slegnum höggum og vítahöggum) nema að leikmaðurinn fær mest hámarksskorið, jafnvel þótt raunverulegt skor hafi verið hærra. Leikmaður sem einhverra hluta vegna leikur ekki í holu samkvæmt reglunum hlýtur hámarksskorið á holunni. Til að flýta leik eru leikmenn hvattir til að hætta leik á holunni þegar skor þeirra hefur náð hámarkinu. Holunni er lokið þegar leikmaðurinn leikur í holu, velur að leika ekki í holu eða þegar skor hans hefur náð hámarkinu. (2) Skor skráð fyrir hverja holu. Til að uppfylla kröfur í reglu 3.3b um að skrá skor hverrar holu á skorkortið:
  • Ef holu er lokið með því að leika í holu.
    • Þegar skor er lægra en hámarkið. Skorkortið verður að sýna raunverulegt skor.
    • Þegar skor er jafnt eða hærra en hámarkið. Skorkortið má sýna annaðhvort ekkert skor eða hvaða skor sem er, jafnt eða hærra en hámarkið.
  • Ef holu er lokið án þess að leika í holu. Ef leikmaðurinn leikur ekki í holu samkvæmt reglunum verður skorkortið að sýna annaðhvort ekkert skor eða hvaða skor sem er, jafnt eða hærra en hámarkið.
Nefndin ber ábyrgð á að breyta skori leikmannsins í hámarksskor á öllum holum þar sem skorkortið sýnir annaðhvort ekkert skor eða eitthvert skor hærra en hámarkið og, í forgjafarkeppnum, að beita forgjafarhöggum.
21.2c

Víti í hámarksskori

Öll víti sem eiga við í höggleik eiga einnig við í hámarksskori, nema að leikmaður sem brýtur einhverja eftirfarandi fimm reglna fær ekki frávísun heldur fær hámarksskorið á holunni þar sem brotið átti sér stað:
  • Ekki leikið í holu samkvæmt reglu 3.3c.
  • Mistök ekki leiðrétt þegar leikið er utan teigsins við að hefja leik á holu (sjá reglu 6.1b(2)).
  • Mistök ekki leiðrétt þegar röngum bolta er leikið (sjá reglu 6.3c).
  • Mistök ekki leiðrétt þegar leikið er af röngum stað og um alvarlegt brot er að ræða (sjá reglu 14.7b), eða
  • Mistök ekki leiðrétt þegar högg eru slegin í rangri röð (sjá reglu 22.3). 
Brjóti leikmaðurinn einhverja aðra reglu þar sem viðurlögin eru frávísun fær leikmaðurinn frávísun. Eftir að vítahöggum hefur verið beitt getur skor leikmannsins á holu ekki orðið hærra en hámarksskorið sem nefndin ákvað.
21.2d

Undantekning við reglu 11.2 í hámarksskori

Regla 11.2 á ekki við undir þessum kringumstæðum: Ef bolti leikmanns er á hreyfingu og þarf að hafna í holu til að leikmaðurinn fái einu höggi lægra skor en hámarksskorið og einhver vísvitandi sveigir boltann úr leið eða stöðvar hann þegar engar raunhæfar líkur eru á að boltinn geti hafnað í holu er það vítalaust gagnvart þeim einstaklingi og leikmaðurinn fær hámarksskorið á holunni.
21.2e

Hvenær umferð lýkur í hámarksskori

Umferð leikmanns lýkur þegar leikmaðurinn:
  • Leikur í holu á síðustu holu sinni (þar á meðal með því að leiðrétta mistök, svo sem samkvæmt reglu 6.1 eða 14.7b), eða
  • Velur að leika ekki í holu á síðustu holunni eða mun fyrirsjáanlega ná hámarksskori á holunni.
21.3

Par/skolli

21.3a

Yfirlit um Par/skolla

Par/skolli er form höggleiks þar sem skor er ákvarðað eins og í holukeppni:
  • Leikmaður eða lið vinnur eða tapar holu með því að ljúka holunni á færri höggum eða fleiri höggum en fast viðmiðunarskor á holunni, sem nefndin hefur sett, og
  • Sá leikmaður eða það lið vinnur keppnina sem hefur flestar unnar holur samanborið við tapaðar holur (þ.e. með því að leggja saman unnar holur og draga frá tapaðar holur).
Venjulegar reglur um höggleik í reglum 1-20 gilda, en með þeim breytingum sem hér koma fram. Regla 21.3 á við um:
  • Keppnir án forgjafar, en hana má einnig aðlaga forgjafarkeppnum, og
  • Einstaklingskeppni, en hana má aðlaga fyrir keppni samherja, með þeim frávikum sem eru í reglum 22 (fjórmenningur) og 23 (fjórleikur), og fyrir sveitakeppnir með þeim frávikum sem eru í reglu 24.
21.3b

Skor í Par/skolla

(1) Hvernig holur vinnast eða tapast. Skor er eins og í holukeppni, þannig að holur vinnast eða tapast með því að bera saman höggafjölda leikmannsins (þ.e. slegin högg og vítahögg) við fast viðmiðunarskor (dæmigert par eða skolla) sem ákveðið er af nefndinni:
  • Ef skor leikmannsins er lægra en fasta skorið vinnur leikmaðurinn holuna.
  • Ef skor leikmanns er jafnt fasta skorinu er holan jöfn (einnig er sagt að holan falli).
  • Ef skor leikmannsins er hærra en fasta skorið, eða hann skilar ekki skori á holunni, tapar hann holunni.
Leikmaður sem af einhverjum ástæðum leikur ekki í holu samkvæmt reglunum tapar holunni. Til að flýta leik eru leikmenn hvattir til að hætta leik á holu þegar skor þeirra á holunni er orðið hærra en fasta skorið (þar sem þeir hafa þá tapað holunni). Holunni er lokið þegar leikmaðurinn leikur í holu, velur að leika ekki í holu eða þegar skor hans er orðið hærra en fasta skorið. (2) Skor skráð fyrir hverja holu. Til að uppfylla kröfur í reglu 3.3b um að skrá skor hverrar holu á skorkortið:
  • Ef holu er lokið með því að leika í holu:
    • Þegar skor leiðir til þess að hola vinnst eða er jöfn. Skorkortið verður að sýna raunverulegt skor.
    • Þegar skor leiðir til þess að hola tapast. Ekkert skor þarf að skrá á skorkortið en annars þarf það að sýna skor sem leiðir til þess að holan tapast.
  • Ef holu er lokið án þess að leika í holu. Leiki leikmaðurinn ekki í holu samkvæmt reglunum verður skorkortið að sýna annaðhvort ekkert skor eða skor sem leiðir til þess að holan tapast.
Nefndin er ábyrg fyrir að ákvarða hvort leikmaðurinn vann holu, tapaði holu eða að hola var jöfn og, í forgjafarkeppni, að beita forgjafarhöggum á skorið sem skráð var á hverja holu, áður en úrslit holunnar eru ákvörðuð. Undantekning – Vítalaust ef engin áhrif á úrslit holu: Það er vítalaust með tilliti til reglu 3.3b þótt leikmaðurinn skili skorkorti með lægra skori á holu en rétt er, ef það hefur ekki áhrif á hvort holan vannst, tapaðist eða var jöfn Sjá Verklag nefnda, hluta 5A(5) (í keppnisskilmálum má hvetja leikmenn til að srká úrslit holunnar á skorkortið. Slíkt má þó ekki vera skylda).
21.3c

Víti í Par/skolla

Öll víti sem eiga við í höggleik eiga einnig við í Par/skolla, nema að leikmaður sem brýtur einhverja af eftirfarandi fimm reglum fær ekki frávísun heldur tapar holunni þar sem brotið átti sér stað:
  • Ekki leikið í holu samkvæmt reglu 3.3c.
  • M is tök ekki leiðrétt þegar leikið er utan teigsins við að hefja leik á holu (sjá reglu 6.1b(2)).
  • Mistök ekki leiðrétt þegar röngum bolta er leikið (sjá reglu 6.3c).
  • Mistök ekki leiðrétt þegar leikið er af röngum stað og um alvarlegt brot er að ræða (sjá reglu 14.7b), eða
  • Mistök ekki leiðrétt þegar högg eru slegin í rangri röð (sjá reglu 22.3). 
Brjóti leikmaðurinn einhverja aðra reglu þar sem viðurlögin eru frávísun fær leikmaðurinn frávísun. Eftir að vítahöggum hefur verið beitt getur árangur leikmannsins aldrei orðið verri en að tapa holunni.
21.3d

Undantekning við reglu 11.2 í par/skolla

Regla 11.2 á ekki við undir þessum kringumstæðum: Ef bolti leikmanns er á hreyfingu og þarf að hafna í holu til að jafna holuna og einhver vísvitandi sveigir boltann úr leið eða stöðvar hann þegar engar raunhæfar líkur eru á að boltinn geti hafnað í holu er það vítalaust gagnvart þeim einstaklingi og leikmaðurinn tapar holunni.
21.3e

Hvenær umferð lýkur í par/skolla

Umferð leikmanns lýkur þegar leikmaðurinn:
  • Leikur í holu á síðustu holu sinni (þar á meðal með því að leiðrétta mistök, svo sem samkvæmt reglu 6.1 eða 14.7b), eða
  • Velur að leika ekki í holu á síðustu holunni eða hefur þegar tapað holunni.
21.4

Þríleikur holukeppni

21.4a

Yfirlit um þríleik holukeppni

Þríleikur holukeppni er form holukeppni þar sem:
  • Hver þriggja leikmanna leikur sjálfstæðan leik gegn hvorum hinna tveggja leikmannanna á sama tíma, og
  • Hver leikmaður leikur einum bolta sem er notaður í báðum leikjum hans.
Venjulegar reglur um holukeppni í reglum 1-20 gilda í öllum þremur leikjunum, nema að eftirfarandi sérreglur gilda undir tvennum kringumstæðum þar sem beiting venjulegu reglnanna í öðrum leiknum kynni að stangast á við beitingu þeirra í hinum leiknum.
21.4b

Leikið í annarri röð

Leiki leikmaður í annarri röð í öðrum hvorum leiknum má mótherjinn sem átti að leika fyrst afturkalla höggið samkvæmt reglu 6.4a(2). Leiki leikmaðurinn í annarri röð í báðum leikjunum má hvor mótherji velja hvort hann afturkalli höggið í sínum leik við leikmanninn. Ef högg leikmannsins er aðeins afturkallað í öðrum leiknum:
  • Verður leikmaðurinn að halda leik áfram með upphaflega boltanum í hinum leiknum.
  • Þetta þýðir að leikmaðurinn verður að ljúka holunni með sitthvorum boltanum í hvorum leik.
21.4c

Bolta eða boltamerki lyft eða hreyft af mótherja

Fái mótherji eitt vítahögg fyrir að lyfta bolta eða boltamerki leikmanns eða fyrir að valda því að boltinn eða boltamerkið hreyfist samkvæmt reglu 9.5b eða 9.7b, gildir það víti aðeins í leiknum við þann leikmann. Mótherjinn fær ekki víti í leik sínum gegn hinum leikmanninum.
21.5

Önnur form golfleiks

Þótt aðeins sé fjallað sérstaklega um tiltekin leikform í reglum 3, 21, 22 og 23, er golf einnig leikið með öðrum leikformum, svo sem „scrambles“ og „greensomes“. Golfreglurnar er hægt að aðlaga til að nota í þessum og öðrum leikformum. Sjá Verklag nefnda, hluta 9 (ráðlagðar leiðir til að aðlaga reglurnar að öðrum algengum leikformum).
EXPLORE MORE
Rule 1Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
Tilgangur reglu: Í reglu 1 er eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins lýst: Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggu...
Read more