Lausn frá lausung og hreyfanlegum hindrunum (þar á meðal boltum eða boltamerkjum sem aðstoða við eða trufla leik)
Tilgangur reglu: Regla 15 fjallar um hvenær og hvernig leikmaður má taka lausn án vítis frá lausung og hreyfanlegum hindrunum.
Þessir hreyfanlegu náttúrulegu og manngerðu hlutir eru ekki taldir hluti af áskoruninni við að leika völlinn og í flestum tilvikum má leikmaðurinn fjarlægja þá þegar þeir trufla leik.
Þó þarf leikmaðurinn að fara varlega við að hreyfa lausung nærri bolta sínum utan flatarinnar, því leikmaðurinn fær víti ef boltinn hreyfist við það.
15
Lausn frá lausung og hreyfanlegum hindrunum (þar á meðal boltum eða boltamerkjum sem aðstoða við eða trufla leik)
15.1
Lausung
15.1a
Að fjarlægja lausung
Leikmaður má vítalaust fjarlægja lausung hvar sem er, á eða utan vallarins og má gera það á hvaða hátt sem er (svo sem með því að nota hönd eða fót, kylfu eða annan útbúnað, fá aðstoð annarra eða brjóta hluta af lausung).Þó eru tvær undantekningar:Undantekning 1 – Að fjarlægja lausung þar sem leggja verður bolta aftur: Áður en bolti er lagður aftur eftir að hafa verið lyft eða hreyfður annars staðar en á flötinni:
Má leikmaður ekki vísvitandi fjarlægja lausung sem hefði líklega valdið því að boltinn hreyfðist ef hún hefði verið fjarlægð áður en boltanum var lyft eða hann hreyfður.
Ef leikmaðurinn gerir það, fær hann eitt vítahögg,en ekki þarf að leggja lausungina aftur.
Þessi undantekning á við bæði á meðan umferð er leikin og á meðan leikur hefur verið stöðvaður samkvæmt reglu 5.7a. Hún á ekki við um lausung sem var ekki til staðar áður en boltanum var lyft eða hann hreyfður, eða lausung sem hreyfist við að merkja staðsetningu bolta, lyfta honum eða leggja hann aftur, eða valda því að boltinn hreyfist. Undantekning 2 – Takmarkanir á að fjarlægja lausung, vísvitandi til að hafa áhrif á bolta sem er á hreyfingu (sjá reglu 11.3).
15.1b
Bolti hreyfður við að fjarlægja lausung
Ef bolti leikmanns hreyfist við að leikmaðurinn fjarlægir lausung:
Verður að leggja boltann aftur á upphaflega stað (sem verður að áætla ef hann er óþekktur) (sjá reglu 14.2).
Ef boltinn sem hreyfðist hafði verið kyrrstæður annars staðar en á flötinni (sjá reglu 13.1d) eða á teignum (sjá reglu 6.2b(6)), fær leikmaðurinn eitt vítahögg samkvæmt reglu 9.4b, nema þegar regla 7.4 á við (vítalaust þótt bolti hreyfist við leit) eða þegar aðrar undantekningar við reglu 9.4b eiga við.
Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 15.1: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
15.2
Hreyfanlegar hindranir
Þessi regla fjallar um lausn án vítis, sem er heimil frá manngerðum hlutum sem falla að skilgreiningu á hreyfanlegum hindrunum.Reglan veitir ekki lausn frá óhreyfanlegum hindrunum (annars konar lausn án vítis er veitt samkvæmt reglu 16.1) eða vallarmarkahlutum eða hlutum vallar (þar sem engin lausn án vítis er í boði).
15.2a
Lausn frá hreyfanlegum hindrunum
(1) Að fjarlægja hreyfanlega hindrun. Fjarlægja má hreyfanlega hindrun hvar sem er á vellinum eða utan hans, vítalaust. Þetta má gera á hvaða hátt sem er.Þó eru tvær undantekningar:Undantekning 1 – Ekki má hreyfa teigmerkin þegar bolta verður leikið af teignum (sjá reglur 6.2b(4) og 8.1a(1)).Undantekning 2 – Takmarkanir á að fjarlægja hreyfanlega hindrun, vísvitandi til að hafa áhrif á bolta á hreyfingu (sjá reglu 11.3).Ef bolti leikmanns hreyfist þegar leikmaðurinn fjarlægir hreyfanlega hindrun:
Er það vítalaust, og
Leggja verður boltann aftur á upphaflegan stað (sem verður að áætla ef hann er óþekktur) (sjá reglu 14.2).
(2) Lausn þegar bolti er í eða á hreyfanlegri hindrun hvar sem er á vellinum, nema á flötinni. Leikmaðurinn má taka lausn án vítis með því að lyfta boltanum, fjarlægja hreyfanlegu hindrunina og láta upphaflega boltann eða annan bolta falla á þessu lausnarsvæði (sjá reglu 14.3):
Viðmiðunarstaður: Áætlaði staðurinn beint undir staðnum þar sem boltinn var kyrrstæður, í eða á hreyfanlegu hindruninni.
Stærð lausnarsvæðisins, mæld frá viðmiðunarstað: Ein kylfulengd, þó með eftirfarandi takmörkunum:
Takmarkanir á staðsetningu lausnarsvæðisins:
Það verður að vera á sama svæði vallarins og viðmiðunarstaðurinn, og
Það má ekki vera nær holunni en viðmiðunarstaðurinn.
MYND #1 15.2a: BOLTI HREYFIST ÞEGAR HREYFANLEG HINDRUN ER FJARLÆGÐ (NEMA ÞEGAR BOLTI ER Í EÐA Á HINDRUNINNI)
MYND #2 15.2a: BOLTI Í EÐA Á HREYFANLEGRI HINDRUN
Þegar bolti er í eða á hreyfanlegri hindrun (svo sem handklæði) hvar sem er á vellinum, má taka vítalausa lausn með því að lyfta boltanum, fjarlægja hindrunina og láta boltann eða annan bolta falla, nema á flötinni þar sem leggja skal boltann.
Viðmiðunarstaðurinn fyrir lausn er áætlaði staðurinn beint undir staðnum þar sem boltinn var kyrrstæður í eða á hreyfanlegu hindruninni.
Lausnarsvæðið er innan einnar kylfulengdar frá viðmiðunarstaðnum, er ekki nær holunni en viðmiðunarstaðurinn og verður að vera á sama svæði vallarins og viðmiðunarstaðurinn.
(3) Lausn þegar bolti er í eða á hreyfanlegri hindrun, á flötinni. Leikmaðurinn má taka lausn án vítis með því að:
Lyfta boltanum og fjarlægja hreyfanlegu hindrunina, og
Leggja upphaflega boltann eða annan bolta á áætlaða staðinn, beint undir staðnum þar sem boltinn var kyrrstæður í eða á hreyfanlegu hindruninni, með því að nota aðferðir við að leggja bolta aftur samkvæmt reglum 14.2b(2) og 14.2e.
15.2b
Lausn vegna bolta sem hefur ekki fundist, en er í eða á hreyfanlegri hindrun
Ef bolti leikmanns hefur ekki fundist og það er vitað eða nánast öruggt að boltinn stöðvaðist í eða á hreyfanlegri hindrun á vellinum má leikmaðurinn nota þessa lausnaraðferð í stað þess að taka fjarlægðarlausn:
Leikmaðurinn má taka lausn án vítis samkvæmt reglu 15.2a(2) eða 15.2a(3), með því að nota sem viðmiðunarstað áætlaða staðinn beint undir staðnum þar sem boltinn fór síðast inn fyrir jaðar hreyfanlegu hindrunarinnar á vellinum.
Þegar leikmaðurinn hefur sett annan bolta í leik til að taka lausn á þennan hátt:
Er upphaflegi boltinn ekki lengur í leik og ekki má leika honum.
Þetta gildir jafnvel þótt boltinn finnist svo á vellinum innan þriggja mínútna leitartímans (sjá reglu 6.3b).
Hins vegar, ef ekki er vitað eða nánast öruggt að boltinn stöðvaðist í eða á hreyfanlegu hindruninni og boltinn er týndur verður leikmaðurinn að taka fjarlægðarlausn samkvæmt reglu 18.2.Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 15.2: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
15.3
Bolti eða boltamerki aðstoða við leik eða trufla leik
15.3a
Bolti á flötinni aðstoðar við leik
Regla 15.3a á aðeins við um kyrrstæðan bolta á flötinni, ekki annars staðar á vellinum.Ef leikmaður hefur ástæðu til að ætla að bolti á flötinni gæti aðstoðað við leik annars leikmanns (svo sem með því að stöðva annan bolta nærri holunni), má leikmaðurinn:
Merkja staðsetningu boltans og lyfta honum samkvæmt reglu 13.1b, ef þetta er hans bolti, eða, ef boltinn tilheyrir öðrum leikmanni, láta þann leikmann merkja staðsetninguna og lyfta boltanum (sjá reglu 14.1).
Boltann sem var lyft verður síðar að leggja aftur á upphaflega staðinn (sjá reglu 14.2).
Eingöngu í höggleik gildir að:
Leikmaður sem þarf að lyfta bolta sínum má leika honum fyrst, í stað þess að lyfta honum.
Ef tveir eða fleiri leikmenn sammælast um að láta bolta liggja til að aðstoða einhvern leikmann og sá leikmaður slær síðan högg þegar boltinn sem aðstoðar liggur á fyrri stað fær hver leikmaður sem stóð að samkomulaginu almenna vítið(tvö vítahögg).
Sjá Verklag nefnda, hluta 5J (leiðbeiningar um þekktar aðferðir til að koma í veg fyrir „boltabremsur“).
15.3b
Bolti truflar leik, hvar sem er á vellinum
(1) Merking truflunar af bolta annars leikmanns. Truflun samkvæmt þessari reglu á sér stað þegar kyrrstæður bolti annars leikmanns:
Gæti truflað svæði fyrirhugaðrar stöðu eða svæði fyrirhugaðs sveiflusviðs leikmannsins,
Er á eða nærri leiklínunni þannig að það er raunhæfur möguleiki, með tilliti til fyrirhugaðs höggs, að bolti leikmannsins hitti boltann, eða
Er svo nærri að hann truflar leikmanninn við að slá höggið.
(2) Hvenær lausn er leyfð vegna bolta sem truflar. Ef leikmaður hefur ástæðu til að ætla að bolti annars leikmanns, hvar sem er á vellinum, gæti truflað við leik eigin bolta leikmannsins:
Má leikmaðurinn láta hinn leikmanninn merkja staðsetningu boltans og lyfta honum (sjá reglu 14.1). Boltann má ekki hreinsa (nema þegar boltanum er lyft af flötinni samkvæmt reglu 13.1b) og leggja verður boltann aftur á sinn upphaflega stað (sjá reglu 14.2).
Ef hinn leikmaðurinn merkir ekki staðsetninguna áður en hann lyftir boltanum eða hreinsar boltann þegar það má ekki fær hann eitt vítahögg.
Eingöngu í höggleik má leikmaður sem þarf að lyfta bolta sínum samkvæmt þessari reglu leika honum fyrst, í stað þess að lyfta honum.
Leikmaður má ekki lyfta bolta sínum samkvæmt þessari reglu eingöngu vegna þess að hann telur sjálfur að boltinn kunni að trufla leik annars leikmanns.Lyfti leikmaðurinn bolta sínum þegar honum er ekki gert að gera það af öðrum leikmanni (nema þegar boltanum er lyft á flötinni samkvæmt reglu 13.1b) fær leikmaðurinn eitt vítahögg.
15.3c
Boltamerki aðstoðar við eða truflar leik
Ef boltamerki kann að aðstoða við eða trufla leik má leikmaður:
Færa boltamerkið í burtu ef þetta er hans boltamerki, eða
Ef boltamerkið tilheyrir öðrum leikmanni, láta þann leikmann færa boltamerkið frá, af sömu ástæðum og hann má láta lyfta bolta samkvæmt reglum 15.3a og 15.3b.
Boltamerkið þarf að færa á nýjan stað sem er mældur frá upphaflega staðnum, til dæmis einn eða fleiri kylfuhausa.Þegar boltamerkið er fært til baka ætti leikmaðurinn að mæla frá nýja staðnum og framkvæma í öfugri röð þau skref sem hann tók til að færa boltamerkið í burtu. Sömu aðferð ætti að nota ef leikmaður færði í burtu bolta sem olli truflun, með því að mæla frá boltanum.Víti fyrir brot á reglu 15.3: Almennt víti.Þetta víti á einnig við ef leikmaðurinn:
Slær högg án þess að bíða eftir að bolta eða boltamerki sem aðstoða við leik er lyft eða fært, eftir að hafa orðið þess áskynja að annar leikmaður (1) ætlaði að lyfta eða færa boltann eða boltamerkið samkvæmt þessari reglu eða (2) hafði sagt einhverjum öðrum að gera það, eða
Neitar að lyfta eða færa bolta sinn eða boltamerki þegar honum er sagt að gera það og högg er síðan slegið af leikmanninum sem boltinn eða boltamerkið hefði getað truflað eða aðstoðað.
Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 15.3: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
Tilgangur reglu Regla 4 nær yfir útbúnaðinn sem leikmenn mega nota þegar umferð er leikin. Vegna þess grundvallaratriðis að golf er krefjandi leikur þ...
Tilgangur reglu: Regla 5 fjallar um hvernig umferð er leikin, svo sem hvar og hvenær leikmaður má æfa sig á vellinum fyrir umferð eða á meðan umferð e...
Tilgangur reglu: Regla 6 fjallar um hvernig leika á holu, svo sem sérstöku ákvæðin um hvernig leikur hefst á holu, kröfuna um að sama bolta sé leikið ...
Tilgangur reglu: Regla 8 lýsir einu grundvallaratriði leiksins: „Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum". Þegar bolti leikmannsins stöðvast verður l...
Tilgangur reglu: Regla 10 fjallar um hvernig eigi að undirbúa og slá högg, þar á meðal um ráðleggingu og aðra aðstoð sem leikmaðurinn má þiggja frá öð...
Tilgangur reglu: Regla 11 fjallar um hvað eigi að gera ef bolti leikmannsins er á hreyfingu og hittir einstakling, dýr, útbúnað eða annað á vellinum. ...
Tilgangur reglu: Regla 12 er sérregla fyrir glompur, sem eru sérstaklega útbúin svæði til að reyna á hæfni leikmannsins við að leika bolta úr sandi. T...
Tilgangur reglu: Regla 13 er sérregla um flatir. Flatir eru sérstaklega gerðar til að leika boltanum eftir jörðinni og einnig er flaggstöng í holunni ...
Tilgangur reglu: Regla 14 fjallar um hvenær og hvernig leikmaðurinn má merkja staðsetningu kyrrstæðs bolta, lyfta boltanum og hreinsa hann og hvernig ...
Tilgangur reglu: Regla 16 fjallar um hvenær og hvernig leikmaðurinn má taka lausn án vítis með því að leika bolta frá öðrum stað, svo sem þegar truflu...
Tilgangur reglu: Regla 17 er sérregla fyrir vítasvæði, sem eru vatnasvæði eða önnur svæði skilgreind af nefndinni, þar sem boltar týnast oft eða eru ó...
Tilgangur reglu: Regla 18 fjallar um fjarlægðarlausn gegn víti. Ef bolti er týndur utan vítasvæðis eða stöðvast út af er rofin sú nauðsynlega framvind...
Tilgangur reglu: Í reglu 19 eru útskýrðir þeir möguleikar sem leikmaðurinn hefur varðandi ósláanlegan bolta. Leikmaðurinn getur valið á milli nokkurra...
Tilgangur reglu: Regla 20 fjallar um hvað leikmenn ættu að gera þegar spurningar vakna um reglurnar á meðan umferð er leikin, þar á meðal ferlin (sem ...
Tilgangur reglu: Regla 21 fjallar um fjögur önnur leikform í keppni einstaklinga, þar á meðal þrjú form höggleiks þar sem skor ákvarðast á annan hátt ...
Tilgangur reglu: Regla 22 fjallar um fjórmenning (sem er ýmist leikinn sem holukeppni eða höggleikur), þar sem tveir samherjar keppa saman sem lið með...
Tilgangur reglu: Regla 23 fjallar um fjórleik (sem er ýmist leikinn sem holukeppni eða höggleikur), þar sem samherjar keppa sem lið og hvor samherji l...
Tilgangur reglu: Regla 24 fjallar um sveitakeppnir (sem leiknar eru annaðhvort sem holukeppni eða höggleikur), þar sem margir leikmenn eða lið keppa s...
Tilgangur reglu: Í reglu 25 er lýst breytingum á ákveðnum golfreglum til að gefa leikmönnum með tilteknar fatlanir kost á að keppa á jafnréttisgrundve...