Prenta hluta
6
Að leika holu
Tilgangur reglu: Regla 6 fjallar um hvernig leika á holu, svo sem sérstöku ákvæðin um hvernig leikur hefst á holu, kröfuna um að sama bolta sé leikið alla holuna nema þegar boltaskipti eru leyfð, leikröð (sem skiptir meira máli í holukeppni en höggleik) og hvernig leik á holu er lokið.
6
Að leika holu
6.1

Að hefja leik á holu

6.1a

Hvenær hola hefst

Leikmaður hefur hafið leik á holu þegar hann slær högg til að hefja leik á holunni. Leikur á holunni er hafinn þótt höggið hafi verið slegið utan teigsins (sjá reglu 6.1b) eða þótt höggið hafi verið afturkallað samkvæmt reglu.
6.1b

Leika verður boltanum innan teigsins

Leikmaður verður að hefja leik á hverri holu með því að slá bolta einhvers staðar innan teigsins samkvæmt reglu 6.2b. Ef leikmaður sem er að hefja leik á holu slær bolta utan teigsins (þar á meðal frá röngum teigmerkjum á öðrum teigstæðum sömu holu eða á annarri holu): (1) Holukeppni. Þetta er vítalaust en mótherjinn má afturkalla höggið:
  • Það verður að gera tafarlaust og áður en annar hvor leikmannanna slær annað högg. Ef mótherjinn afturkallar höggið getur hann ekki dregið afturköllunina til baka.
  • Ef mótherjinn afturkallar höggið verður leikmaðurinn að slá bolta innan teigsins og hann á að slá næstur.
  • Ef mótherjinn afturkallar ekki höggið gildir höggið, boltinn er í leik og honum þarf að leika þar sem hann liggur.
(2) Höggleikur. Leikmaðurinn fær almenna vítið (tvö vítahögg) og verður að leiðrétta mistökin með því að leika bolta innan teigsins:
  • Boltinn sem leikið var utan teigsins er ekki í leik.
  • Það högg og öll önnur högg á holunni áður en mistökin eru leiðrétt (slegin högg og vítahögg beinlínis vegna leiks þess bolta) gilda ekki.
  • Leiðrétti leikmaðurinn ekki mistökin áður en hann slær högg til að hefja leik á annarri holu eða, ef um síðustu holu umferðarinnar er að ræða, áður en hann skilar skorkorti sínu hlýtur hann frávísun.
6.2

Að leika bolta af teignum

6.2a

Hvenær teigreglur eiga við

Teigreglurnar í reglu 6.2b gilda alltaf þegar leikmaður þarf eða má leika bolta af teignum. Þetta á við þegar:
  • Leikmaðurinn hefur leik á holunni (sjá reglu 6.1),
  • Leikmaðurinn mun leika aftur af teignum samkvæmt reglu (sjá reglu 14.6), eða
  • Bolti leikmannsins er í leik á teignum eftir högg eða eftir að leikmaðurinn hefur tekið lausn
Þessi regla á einungis við um teiginn sem leikmaðurinn verður að leika frá til að hefja leik á holunni sem hann er að leika, ekki önnur teigstæði á vellinum (hvort heldur sem er á sömu holu eða á öðrum holum).
6.2b

Teigreglur

(1) Hvenær bolti er innan teigsins.
  • Bolti er innan teigsins þegar einhver hluti boltans snertir eða er ofan við einhvern hluta teigsins.
  • Leikmaðurinn má standa utan teigsins þegar hann slær högg að bolta sem er innan teigsins.
(2) Boltinn má vera tíaður eða vera leikið af jörðinni. Boltann verður að leika annaðhvort af:
  • Tíi sem er í eða á jörðinni, eða
  • Jörðinni sjálfri.
Með tilliti til þessarar reglu innifelur „jörðin“ sand eða önnur náttúruleg efni sem sett eru á jörðina til að stinga tíi í eða leggja boltann ofan á. Leikmaðurinn má ekki slá högg að bolta á óleyfilegu tíi eða að bolta sem er tíaður á einhvern hátt sem er óleyfilegur samkvæmt þessari reglu. Víti fyrir brot á reglu 6.2b(2):
  • Víti fyrir fyrsta brot: Almennt víti.
  • Víti fyrir annað brot: Frávísun.
(3) Bæta má ákveðnar aðstæður á teignum. Áður en leikmaðurinn slær högg er honum heimilt að gera eftirfarandi á teignum til að bæta aðstæður sem hafa áhrif á höggið (sjá reglu 8.1b(8)):
  • Breyta yfirborði jarðarinnar á teignum (svo sem með því að mynda ójöfnu með kylfu eða fæti),
  • Færa, beygja, slíta eða brjóta gras, illgresi og aðra náttúrulega hluti sem eru fastir eða vaxa á teignum,
  • Fjarlægja eða þrýsta niður sandi og jarðvegi á teignum, og
  • Fjarlægja dögg, hrím og vatn á teignum.
Þó fær leikmaðurinn almenna vítið ef hann aðhefst eitthvað frekar til að bæta aðstæður sem hafa áhrif á höggið, í berhögg við reglu 8.1a. (4) Takmarkanir á að hreyfa teigmerkin, eða ef teigmerkin vantar, þegar leikið er af teignum.
  • Staðsetning teigmerkjanna er ákveðin af nefndinni til að skilgreina hvern teig. Staðsetningin ætti að vera sú sama fyrir alla leikmenn sem munu leika af teignum.
  • Bæti leikmaðurinn aðstæðurnar sem hafa áhrif á höggið með því að hreyfa teigmerkin áður en hann slær högg af teignum hlýtur hann almenna vítið fyrir brot á reglu 8.1a(1).
  • Ef leikmaðurinn uppgötvar að annað eða bæði teigmerkin vantar ætti hann að leita aðstoðar nefndarinnar. Hins vegar, ef nefndin er ekki tiltæk innan eðlilegs tíma ætti leikmaðurinn að beita heilbrigðri skynsemi (regla 1.3b(2)) til að áætla staðsetningu teigsins.  
Undir öllum öðrum kringumstæðum er litið á teigmerkin sem venjulegar hreyfanlegar hindranir sem má fjarlægja samkvæmt reglu 15.2. (5) Bolti er ekki í leik fyrr en högg er slegið. Hvort sem boltinn er tíaður eða lagður á jörðina þegar leikur á holu hefst eða þegar leikið er aftur af teignum samkvæmt reglu:
  • Er boltinn ekki í leik fyrr en leikmaðurinn slær högg að honum, og 
  • Lyfta má boltanum eða hreyfa hann, vítalaust, áður en höggið er slegið.
Ef tíaður bolti fellur af tíinu eða er felldur af tíinu af leikmanninum áður en hann slær högg að boltanum má tía boltann aftur hvar sem er á teignum, vítalaust. Hins vegar ef leikmaðurinn slær högg að boltanum í sömu mund og boltinn fellur af tíinu eða eftir að hann hefur fallið af tíinu er það vítalaust, höggið gildir og boltinn er í leik. (6) Þegar bolti í leik liggur á teignum. Ef bolti leikmannsins er í leik og liggur á teignum eftir högg (t.d. tíaður bolti eftir vindhögg) eða eftir að leikmaðurinn tók lausn, má hann:
  • Lyfta eða hreyfa boltann vítalaust (sjá undantekningu 1 við reglu 9.4b), og
  • Leika boltanum eða öðrum bolta hvaðan sem er af teignum, af tíi eða jörðinni samkvæmt (2), þar á meðal má hann leika boltanum þar sem hann liggur. 
Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 6.2b(6): Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
6.3

Bolti sem er notaður við leik holu

Tilgangur reglu: Hola er leikin með röð högga frá teignum, inn á flötina og í holuna. Eftir teighöggið þarf leikmaðurinn að öllu jöfnu að leika sama boltanum þar til holunni er lokið. Leikmaðurinn fær víti ef hann slær högg að röngum bolta eða að skiptibolta þegar reglurnar leyfa ekki boltaskiptin.
6.3a

Leikið í holu með sama bolta og leikið var af teignum

Leikmaður má leika með hvaða leyfilega bolta sem er þegar hann hefur leik á holu frá teignum og má skipta um bolta á milli hola. Leikmaðurinn verður að leika í holu með sama boltanum og hann lék af teignum, nema þegar:
  • Sá bolti er týndur eða stöðvast út af, eða
  • Leikmaðurinn skiptir um bolta (hvort sem hann má það eða ekki).
Leikmaðurinn ætti að auðkenna boltann sem hann ætlar að leika (sjá reglu 7.2).
6.3b

Að skipta um bolta á meðan hola er leikin

(1) Hvenær leikmaður má og má ekki skipta um bolta. Ákveðnar reglur heimila leikmanni að skipta um boltann sem hann notar við að leika holu og setja þar með nýjan bolta í leik og aðrar reglur heimila það ekki:
  • Þegar lausn er tekin samkvæmt reglu, hvort sem er með því að láta bolta falla eða með því að leggja bolta (t.d. þegar bolti helst ekki kyrr innan lausnarsvæðis eða tekin er lausn á flötinni) má leikmaðurinn nota upphaflega boltann eða annan bolta (regla 14.3a),
  • Þegar leikið er aftur þaðan sem síðasta högg var slegið má leikmaðurinn nota upphaflega boltann eða annan bolta (regla 14.6) og
  • Þegar bolti er lagður aftur má leikmaðurinn ekki skipta um bolta og verður að nota upphaflegan bolta, með ákveðnum undantekningum (regla 14.2a).
(2) Skiptibolti verður að bolta í leik. Þegar leikmaður skiptir um bolta og skiptiboltinn verður að bolta í leik (sjá reglu 14.4):
  • Er upphaflegi boltinn ekki lengur í leik, jafnvel þótt hann liggi á vellinum.
  • Þetta gildir, þótt leikmaðurinn:
    • Skipti um bolta þegar reglurnar leyfa það ekki (hvort sem leikmaðurinn áttar sig á því að hann var að skipta um bolta), eða
    • Lagði skiptiboltann aftur, lét hann falla eða lagði hann (1) á rangan hátt, (2) á rangan stað eða (3) með aðferð sem átti ekki við
  • Varðandi hvernig eigi að leiðrétta mistök áður en skiptiboltanum er leikið, sjá reglu 14.5.
Ef upphaflegur bolti leikmannsins hefur ekki fundist og leikmaðurinn setur annan bolta í leik til að taka fjarlægðarlausn (sjá reglur 17.1d, 18.1, 18.2b og 19.2a), eða eins og leyft er samkvæmt reglu sem á við þegar vitað er eða nánast öruggt hvað varð um boltann (sjá reglur 6.3c, 9.6, 11.2c, 15.2b, 16.1e og 17.1c):
  • Verður leikmaðurinn að halda leik áfram með skiptiboltanum, og
  • Leikmaðurinn má ekki leika upphaflega boltanum, jafnvel þótt hann hafi fundist á vellinum áður en þriggja mínútna leitartíminn rann út (sjá reglu 18.2a(1)).
(3) Að slá högg að skiptibolta sem var settur ranglega í leik. Ef leikmaður slær högg að bolta sem hefur ranglega orðið skiptibolti fær leikmaðurinn eitt vítahögg og verður síðan að ljúka holunni með skiptiboltanum sem var settur ranglega í leik.
6.3c

Rangur bolti

(1) Að slá högg að röngum bolta. Leikmaður má ekki slá höggröngum bolta. Undantekning -- Bolti hreyfist í vatni: Það er vítalaust þótt leikmaður slái höggröngum bolta sem er á hreyfingu í vatni innan vítasvæðis eða í tímabundnu vatni:
  • Höggið gildir ekki, og
  • Leikmaðurinn verður að leiðrétta mistökin samkvæmt reglunum með því að leika réttum bolta frá sínum upphaflega stað eða með því að taka lausn samkvæmt reglunum.
Víti fyrir að leika röngum bolta, andstætt reglu 6.3c(1) Í holukeppni fær leikmaðurinn almenna vítið (holutap):
  • Ef leikmaðurinn og mótherjinn slá bolta hvor annars við leik holu fær sá sem fyrst sló höggröngum bolta almenna vítið (holutap).
  • En ef ekki er vitað hvorum ranga boltanum var leikið fyrst er það vítalaust og ljúka verður holunni með boltunum víxluðum.
Í höggleik fær leikmaðurinn almenna vítið (tvö vítahögg) og verður að leiðrétta mistökin með því að halda leik áfram með upphaflega boltanum og leika honum þar sem hann liggur eða taka lausn samkvæmt reglunum:
  • Höggið sem slegið var að ranga boltanum gildir ekki og ekki heldur frekari högg áður en mistökin eru leiðrétt (þ.e. slegin högg og öll vítahögg sem orsökuðust beinlínis af leik þess bolta)
  • Leiðrétti leikmaðurinn ekki mistökin áður en hann slær högg til að hefja leik á annarri holu eða, ef um síðustu holu umferðarinnar er að ræða, áður en hann skilar skorkorti sínu hlýtur hann frávísun.
(2) Hvað gera á ef bolta leikmanns var leikið sem röngum bolta af öðrum leikmanni. Ef vitað er eða nánast öruggt að bolta leikmannsins var leikið af öðrum leikmanni sem röngum bolta verður leikmaðurinn að leggja aftur upphaflega boltann eða annan bolta á upphaflega staðinn (sem þarf að áætla ef hann er óþekktur) (sjá reglu 14.2). Þetta gildir hvort sem upphaflegi boltinn hefur fundist eða ekki.
6.3d

Hvenær leikmaður má leika fleiri en einum bolta í einu

Leikmaður má einungis leika fleiri en einum bolta í einu á holu þegar:
  • Hann leikur varabolta (sem verður annaðhvort bolti í leik eða ekki, eins og lýst er í reglu 18.3c), eða
  • Hann leikur tveimur boltum í höggleik til að leiðrétta hugsanlegt alvarlegt brot við að leika frá röngum stað (sjá reglu 14.7b) eða þegar hann er óviss um rétta aðferð (sjá reglu 20.1c(3)).
6.4

Leikröð þegar hola er leikin

Tilgangur reglu: Regla 6.4 fjallar um leikröð við leik holu. Leikröðin af teig ræðst af því hver á teiginn og eftir það ræðst leikröðin af því hvaða bolti er lengst frá holunni.
  • Í holukeppni er leikröðin mjög mikilvæg. Ef leikmaður leikur í annarri röð má mótherjinn afturkalla höggið og láta leikmanninn leika að nýju.
  • Í höggleik er vítalaust þótt leikið sé í annarri röð og leikmönnum er bæði heimilt og þeir hvattir til að leika þegar þeir eru tilbúnir, en þó með fullri árvekni og á ábyrgan hátt.
6.4a

Holukeppni

(1) Leikröð. Leikmaðurinn og mótherjinn verða að leika í þessari röð:
  • Við upphaf fyrstu holu. Á fyrstu holu ræður töfluröð nefndarinnar því hver á teiginn. Ef töfluröð er ekki fyrir hendi ræðst röðin af samkomulagi eða hendingu (t.d. með því að kasta upp á það).
  • Við upphaf annarra hola.
    • Leikmaðurinn sem vinnur holu á teiginn á næsta teig.
    • Ef holan féll á sá sem átti teiginn á síðustu holu áfram teiginn.
    • Ef leikmaður leggur tímanlega fram ósk um úrskurð (sjá reglu 20.1b) sem hefur ekki verið afgreidd af nefndinni og gæti haft áhrif á hver eigi teiginn á næstu holu ræðst hver á teiginn af samkomulagi eða hendingu.
  • Eftir að báðir leikmenn hafa byrjað leik á holu.
    • Fyrst á að leika boltanum sem er lengra frá holunni.
    • Ef boltarnir eru jafn langt frá holunni eða ef óljóst er hvor er fjær holunni ræður samkomulag eða hending því hver á að leika næst.
(2) Mótherji má afturkalla högg leikmanns sem lék í annarri röð. Ef leikmaður leikur þegar mótherjinn átti að leika er það vítalaust en mótherjinn getur afturkallað höggið:
  • Það verður að gera tafarlaust og áður en annar hvor leikmannanna slær annað högg. Ef mótherjinn afturkallar höggið getur hann ekki dregið afturköllunina til baka.
  • Ef mótherjinn afturkallar höggið verður leikmaðurinn, þegar kemur að honum að leika, að leika bolta frá staðnum þar sem afturkallaða höggið var slegið (sjá reglu 14.6).
  • Ef mótherjinn afturkallar ekki höggið gildir það högg, boltinn er í leik og honum þarf að leika þar sem hann liggur.
Undantekning – Samkomulag um að leika í annarri röð til að flýta fyrir: Til að flýta fyrir:
  • Getur leikmaðurinn boðið mótherjanum að slá í annarri röð eða samþykkt ósk mótherjans um að leika í annarri röð.
  • Ef mótherjinn slær síðan höggið í annarri röð hefur leikmaðurinn afsalað sér heimildinni til að afturkalla höggið.
Sjá reglu 23.6 (leikröð í fjórleik).
6.4b

Höggleikur

(1) Venjuleg leikröð.
  • Við upphaf fyrstu holu. Leikröð á fyrsta teig ræðst af töfluröð nefndarinnar eða, ef hún er ekki fyrir hendi, af samkomulagi eða hendingu (svo sem með því að kasta upp á það).
  • Við upphaf annarra hola.
    • Sá leikmaður í ráshópnum sem hefur lægsta brúttóskor á holu á teiginn á næsta teig, leikmaðurinn með næst lægsta brúttóskorið ætti að slá næstur og svo framvegis.
    • Ef tveir eða fleiri leikmenn hafa sama skor á holu ættu þeir að leika í sömu röð og á næsta teig á undan.
    • Leikröðin ræðst af brúttóskori, einnig í keppnum með forgjöf.
  • Eftir að allir leikmenn hafa byrjað leik á holu.
    • Fyrst ætti að leika boltanum sem er lengst frá holunni.
    • Ef tveir eða fleiri boltar eru jafnlangt frá holunni eða ef óljóst er hver þeirra er fjærst holunni ætti samkomulag eða hending að ráða því hvaða bolti er sleginn næst.
Það er vítalaust þótt leikmaður leiki í annarri röð, nema ef tveir eða fleiri leikmenn sammælast um að leika í annarri röð til að einhver þeirra hagnist á því, og einn þeirra leikur síðan í annarri röð  fær hver þeirra almenna vítið (tvö vítahögg). (2) Leikið í annarri röð með fullri árvekni og ábyrgan hátt. Leikmenn bæði mega og eru hvattir til að leika í annarri röð, en þó með fullri árvekni og á ábyrgan hátt, t.d. þegar:
  • Tveir eða fleiri leikmenn sammælast um að gera það til þæginda eða til að flýta fyrir,
  • Bolti leikmanns stöðvast mjög nálægt holunni og leikmaðurinn vill leika í holu, eða
  • Leikmaður er tilbúinn og fær um að leika á undan öðrum leikmanni sem á að leika næst samkvæmt venjulegri leikröð í (1), svo framarlega að sá sem leikur í annarri röð skapi ekki hættu eða truflun fyrir aðra leikmenn.
Hins vegar, ef leikmaðurinn sem á að leika næst samkvæmt (1) er tilbúinn og fær um að leika og gefur til kynna að hann vilji leika fyrst ættu aðrir leikmenn almennt að bíða þar til sá leikmaður hefur leikið. Leikmaður ætti ekki að leika í annarri röð til að öðlast forskot á aðra leikmenn.
6.4c

Þegar leikmaður mun slá varabolta eða annan bolta af teignum

Leikröðin í þessu tilfelli er þannig að allir aðrir leikmenn í ráshópnum slá sitt fyrsta högg áður en leikmaðurinn slær varaboltann eða annan bolta af teignum. Ef fleiri en einn leikmaður munu slá varabolta eða annan bolta af teignum er leikröðin sú sama og áður. Ef varabolta eða öðrum bolta er leikið í annarri röð, sjá reglur 6.4a(2) og 6.4b.
6.4d

Þegar leikmaður tekur lausn eða mun leika varabolta, annars staðar en af teignum

Leikröðin samkvæmt reglum 6.4a(1) og 6.4b(1) í þessum tveimur tilvikum er eftirfarandi: (1) Að taka lausn til að leika bolta frá öðrum stað en þar sem hann liggur.
  • Þegar leikmaður uppgötvar að hann verður að taka fjarlægðarlausn. Leikröð leikmannsins ræðst af því hvaðan hann sló síðasta högg sitt.
  • Þegar leikmaður hefur val um að leika boltanum þar sem hann liggur eða að taka lausn.
    • Leikröðin ræðst af staðsetningu upphaflega boltans (sem þarf að áætla ef staðurinn er óþekktur) (sjá reglu 14.2).
    • Þetta á einnig við þegar leikmaðurinn hefur ákveðið að taka fjarlægðarlausn eða að taka lausn frá öðrum stað en þeim þar sem upphaflegi boltinn liggur (t.d. þegar upphaflegi boltinn er á vítasvæði eða verður dæmdur ósláanlegur).
(2) Varabolta leikið. Leikröðin er þannig að leikmaðurinn slær varaboltann strax eftir að hann slær fyrra höggið og áður en aðrir leika, nema:
  • Þegar verið er að hefja leik á holu af teignum (sjá reglu 6.4c), eða
  • Þegar leikmaðurinn bíður áður en hann ákveður að leika varabolta (í því tilfelli ræðst leikröðin, þegar leikmaðurinn hefur ákveðið að leika varabolta, af því hvaðan síðasta högg var slegið). 
6.5

Að ljúka leik á holu

Leikmaður hefur lokið holu:
  • Í holukeppni, þegar:
    • Leikmaðurinn leikur boltanum í holu eða næsta högg hans er gefið, eða
    • Úrslit holunnar eru ljós (til dæmis þegar mótherjinn gefur holuna, skor mótherjans á holunni er lægra en skor leikmannsins getur hugsanlega orðið eða þegar leikmaðurinn eða mótherjinnalmenna vítið (holutap)).
  • Í höggleik, þegar leikmaðurinn leikur boltanum í holu samkvæmt reglu 3.3c.
Ef leikmaður veit ekki að hann hefur lokið holu og reynir að halda leik áfram telst það ekki vera æfing og leikmaðurinn fær ekki víti fyrir að leika öðrum bolta, þar á meðal röngum bolta. Sjá reglur 21.1b(1), 21.2b(1), 21.3b(1) og 23.3c (hvenær leikmaður hefur lokið holu í öðrum formum höggleiks eða í fjórleik).
SKOÐA FLEIRA
Regla 1Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
Tilgangur reglu: Í reglu 1 er eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins lýst: Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggu...
Lesa meira