Prenta hluta
7
Leit að bolta: Að finna og þekkja bolta
Tilgangur reglu: Regla 7 leyfir leikmanninum að viðhafa hóflegar athafnir til að leita að bolta sínum í leik eftir hvert högg.
  • Leikmaðurinn þarf samt að fara varlega, því hann mun fá víti ef hann fer óhóflega að og veldur betrumbótum á aðstæðum fyrir næsta högg sitt.
  • Leikmaðurinn fær ekki víti þótt boltinn hreyfist af slysni þegar leitað er að honum eða reynt að þekkja hann, en verður þá að leggja boltann aftur á upphaflegan stað.
7
Leit að bolta: Að finna og þekkja bolta
7.1

Hvernig leita á að bolta á eðlilegan hátt

7.1a

Leikmaður má viðhafa hóflegar athafnir til að finna og þekkja bolta

Leikmaðurinn er ábyrgur fyrir að finna bolta sinn í leik eftir hvert högg. Leikmaðurinn má leita á eðlilegan hátt að boltanum með því að viðhafa hóflegar athafnir til að finna hann og þekkja, svo sem:
  • Hreyfa við sandi og vatni, og
  • Hreyfa og beygja gras, runna, trjágreinar og aðra náttúrlega hluti sem vaxa eða eru fastir, ásamt því að brjóta slíka hluti, en aðeins ef það gerist við aðrar hóflegar athafnir til að finna og þekkja boltann.
Ef slíkar hóflegar athafnir við eðlilega leit bæta aðstæður sem hafa áhrif á höggið:
  • Er það vítalaust samkvæmt reglu 8.1a ef bótin orsakast af eðlilegri leit.
  • Hins vegar, ef bótin orsakast af athöfnum sem ganga lengra en er hóflegt við eðlilega leit fær leikmaðurinn almenna vítið fyrir brot á reglu 8.1a.
Við að leita að boltanum og reyna að þekkja hann má leikmaðurinn fjarlægja lausung, eins og fram kemur í reglu 15.1 og má fjarlægja hreyfanlegar hindranir, eins og fram kemur í reglu 15.2.
7.1b

Hvað gera á ef sandur sem hefur áhrif á legu bolta leikmanns er hreyfður við að reyna að finna boltann eða þekkja hann

  • Leikmaðurinn verður að endurgera upphaflegu leguna í sandinum, en má skilja lítinn hluta boltans eftir sýnilegan ef boltinn var hulinn sandi.
  • Ef leikmaðurinn leikur boltanum án þess að hafa endurgert upphaflegu leguna fær hann almenna vítið.
7.2

Hvernig þekkja á bolta

Þegar bolti leikmanns er kyrrstæður má þekkja hann á einhvern eftirfarandi vegu:
  • Af leikmanninum eða einhverjum öðrum sem sér bolta stöðvast undir kringumstæðum þar sem vitað er að þetta er bolti leikmannsins.
  • Með því að sjá auðkenni leikmannsins á boltanum (sjá reglu 6.3a). Þó á þetta ekki við ef annar eins bolti með sömu auðkennum finnst einnig á sama svæði.
  • Með því að finna bolta af sömu tegund, sömu gerð, með sama númeri og í sama ástandi og bolti leikmannsins, á svæði þar sem reiknað er með að bolti leikmannsins liggi ,þó á þetta ekki við ef annar eins bolti liggur á sama svæði og ómögulegt er að sjá hvor er bolti leikmannsins).
Ef ekki er hægt greina á milli varabolta leikmanns og upphaflegs bolta hans, sjá reglu 18.3c(2).
7.3

Að lyfta bolta til að þekkja hann

Ef bolti gæti verið bolti leikmanns, en ekki er hægt að þekkja boltann þar sem hann liggur:
  • Má leikmaðurinn lyfta boltanum til að þekkja hann (þar á meðal með því að snúa honum), en:
  • Fyrst verður að merkja, staðsetningu boltans og ekki má hreinsa boltann meira en nauðsynlegt er til að þekkja hann (nema á flötinni) (sjá reglu 14.1).
Ef boltinn sem var lyft er bolti leikmannsins eða bolti annars leikmanns verður að leggja boltann aftur á upphaflega staðinn (sjá reglu 14.2). Ef leikmaðurinn lyftir bolta sínum samkvæmt þessari reglu þegar slíkt er óþarft til að þekkja boltann (nema á flötinni þar sem leikmaðurinn má lyfta boltanum samkvæmt reglu 13.1b), merkir ekki staðsetningu boltans áður en honum er lyft eða hreinsar boltann þegar það má ekki, fær leikmaðurinn eitt vítahögg. Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 7.3: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
7.4

Bolti hreyfður af slysni við að reyna að finna hann eða þekkja hann

Það er vítalaust þótt leikmaðurinn, mótherji hans eða einhver annar hreyfi óvart bolta leikmannsins við að reyna að finna boltann eða þekkja hann. Hins vegar, ef leikmaðurinn veldur því að bolti hans hreyfist áður en leikmaðurinn byrjar leit að boltanum fær leikmaðurinn eitt vítahögg samkvæmt reglu 9.4b. Í þessari reglu þýðir „af slysni“ meðal annars ef einhver veldur því að bolti hreyfist þegar viðhafðar eru hóflegar athafnir við leit að boltanum, athafnir sem voru líklegar til að leiða staðsetningu boltans í ljós með því að hreyfa hann (svo sem með því að sveifla fótum í háu grasi eða hrista tré).  Ef þetta gerist verður að leggja boltann aftur á upphaflegan stað (sem verður að áætla ef hann er óþekktur) (sjá reglu 14.2). Þegar það er gert:
  • Ef boltinn lá ofan á, undir eða upp að óhreyfanlegri hindrun, hluta vallar, vallarmarkahlut eða náttúrulegum hlut sem vex eða er fastur, verður að leggja boltann aftur á upphaflega staðinn, ofan á, undir eða upp að slíkum hlut (sjá reglu 14.2c).
  • Ef boltinn var hulinn sandi verður að endurgera upphaflega legu boltans og leggja verður boltann aftur í þá legu (sjá reglu 14.2d(1)). Þó má leikmaðurinn skilja lítinn hluta boltans eftir sýnilegan.
Sjá einnig reglu 15.1a (takmarkanir á að fjarlægja vísvitandi tiltekna lausung áður en bolti er lagður aftur). Víti fyrir brot á reglu 7.4: Almennt víti.
SKOÐA FLEIRA
Regla 1Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
Tilgangur reglu: Í reglu 1 er eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins lýst: Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggu...
Lesa meira