Prenta hluta
20
Að leysa úr álitamálum um reglurnar á meðan umferð er leikin. Úrskurðir dómara og nefndarinnar
Tilgangur reglu: Regla 20 fjallar um hvað leikmenn ættu að gera þegar spurningar vakna um reglurnar á meðan umferð er leikin, þar á meðal ferlin (sem eru ólík í holukeppni og höggleik) sem gefa leikmönnum kost á að gæta réttar síns og að fá úrskurð síðar. Reglan fjallar einnig um hlutverk dómara sem er heimilað að úrskurða um staðreyndir og að beita reglunum. Úrskurðir dómara eða nefndarinnar eru bindandi fyrir alla leikmenn.
20
Að leysa úr álitamálum um reglurnar á meðan umferð er leikin. Úrskurðir dómara og nefndarinnar
20.1

Að leysa úr álitamálum um reglurnar á meðan umferð er leikin

20.1a

Leikmenn verða að forðast óhæfilega töf

Leikmenn mega ekki tefja leik um of þegar leitað er aðstoðar vegna r eglnanna á meðan umferð er leikin:
  • Ef dómari eða nefndin eru ekki tiltæk innan hæfilegs tíma til aðstoðar vegna reglnanna verður leikmaðurinn að ákveða hvað skuli gera og halda leik áfram.
  • Leikmaðurinn má gæta réttinda sinna með því að óska eftir úrskurði í holukeppni (sjá reglu 20.1b(2)) eða með því að leika tveimur boltum í höggleik (sjá reglu 20.1c(3)).
20.1b

Álitamál um reglurnar í holukeppni

(1) Að útkljá álitamál með samkomulagi. Á meðan umferð er leikin mega leikmenn í holukeppni komast að samkomulagi til að útkljá álitamál um reglurnar:
  • Samkomulagið er endanlegt, jafnvel þótt í ljós komi að það hafi ekki verið samkvæmt reglunum, svo framarlega að leikmennirnir ákváðu ekki vísvitandi að hunsa reglu eða víti sem þeir vissu að væru viðeigandi (sjá reglu 1.3b(1)).
  • Hins vegar, ef dómari er tilnefndur til að fylgja leiknum verður dómarinn að úrskurða um öll álitamál sem berast tímanlega til hans (sjá reglu 20.1b(2)) og leikmenn verða að fylgja slíkum úrskurðum.
Ef dómari er ekki tiltækur og leikmennirnir eru ósammála eða eru í vafa um hvernig eigi að beita reglunum má hvor þeirra sem er óska eftir úrskurði samkvæmt reglu 20.1b(2). (2) Ósk um úrskurð borin fram áður en úrslit leiksins eru endanleg. Þegar leikmaður vill að dómari eða nefndin úrskurði um hvernig eigi að beita reglunum varðandi leik hans eða mótherja hans má leikmaðurinn leggja fram ósk um úrskurð. Ef dómari eða nefndin eru ekki tiltæk innan hæfilegs tíma má leikmaðurinn leggja óskina fram með því að láta mótherjann vita að óskað verði eftir úrskurði síðar, þegar dómari eða nefndin verða tiltæk. Óski leikmaður eftir úrskurði áður en úrslit leiksins eru endanleg:
  • Verður úrskurður því aðeins kveðinn upp að óskin hafi verið lögð fram tímanlega, sem fer eftir því hvenær leikmaðurinn vissi staðreyndirnar sem álitamálið snýst um:
    • Þegar leikmaður öðlast vitneskju um staðreyndirnar áður en annar hvor leikmannanna hefur leik á lokaholu leiksins. Þegar leikmaðurinn öðlast vitneskju um staðreyndirnar verður að óska eftir úrskurði áður en annar hvor leikmannanna slær högg til að hefja leik á annarri holu.
    • Þegar leikmaður öðlast vitneskju um staðreyndirnar á meðan lokahola leiksins er leikin eða eftir að henni er lokið. Óska verður eftir úrskurði áður en úrslit leiksins verða endanleg (sjá reglu 3.2a(5)).
  • Ef leikmaðurinn óskar ekki eftir úrskurði innan þessa tíma mun úrskurður ekki verða kveðinn upp af dómara eða nefndinni og úrslit holunnar eða holanna sem um ræðir munu gilda, jafnvel þótt reglunum hafi verið beitt á rangan hátt.
Ef leikmaðurinn óskar eftir úrskurði um fyrri holu verður úrskurður því aðeins kveðinn upp að allt eftirfarandi eigi við:
  • Mótherjinn braut reglu 3.2d(1) (gaf upp rangan höggafjölda) eða reglu 3.2d(2) (láðist að upplýsa leikmanninn um víti),
  • Óskin byggir á staðreyndum sem voru leikmanninum ekki kunnar, annaðhvort áður en annar hvor leikmaðurinn sló högg til að hefja leik á holunni sem verið er að leika eða, ef leikmennirnir eru á milli hola, á holunni sem hann var að ljúka, og
  • Eftir að leikmanninum urðu staðreyndirnar ljósar óskaði hann tímanlega eftir úrskurði (eins og lýst er hér að framan).
(3) Óskað eftir úrskurði eftir að úrslit leiks eru endanleg. Þegar leikmaður óskar eftir úrskurði eftir að úrslit leiks eru endanleg:
  • Mun nefndin því aðeins úrskurða að eftirfarandi eigi hvoru tveggja við:
    • Óskin byggir á staðreyndum sem voru leikmanninum ekki kunnar áður en úrslitin urðu endanleg, og
    • Mótherjinn braut reglu 3.2d(1) (gaf upp rangan höggafjölda) eða reglu 3.2d(2) (láðist að upplýsa leikmanninn um víti) og vissi af brotinu áður en úrslit leiksins urðu endanleg.
  • Engin tímamörk eru á að kveða upp slíkan úrskurð.
(4) Ekki heimilt að leika tveimur boltum. Leikmaður sem er óviss um rétta aðferð í holukeppni má ekki ljúka holunni með tveimur boltum. Sú aðferð á aðeins við í höggleik (sjá reglu 20.1c).
20.1c

Álitamál um reglurnar í höggleik

(1) Ekki heimilt að útkljá álitamál með samkomulagi. Ef dómari eða nefndin eru ekki tiltæk innan hæfilegs tíma til að aðstoða við álitamál um reglurnar:
  • Eru leikmennirnir hvattir til að aðstoða hver annan við beitingu reglnanna en þeim er óheimilt að ákveða niðurstöðuna með samkomulagi og samkomulag sem þeir kunna að komast að er ekki bindandi fyrir leikmenn, dómara eða nefndina.
  • Leikmaður ætti að bera upp við nefndina öll álitamál varðandi reglurnar áður en hann skilar skorkorti sínu.
(2) Leikmenn ættu að gæta hagsmuna annarra leikmanna í keppninni. Til að gæta hagsmuna allra annarra leikmanna:
  • Ef leikmaður veit eða telur að annar leikmaður hafi brotið reglurnar eða kunni að hafa brotið reglurnar og að sá leikmaður átti sig ekki á því eða líti fram hjá því ætti leikmaðurinn að láta hinn leikmanninn vita, ritara hans, dómara eða nefndina.
  • Þetta ætti að gera strax eftir að leikmanninum verður þetta ljóst og í öllum tilvikum áður en hinn leikmaðurinn skilar skorkorti sínu, sé þess nokkur kostur.
Geri leikmaðurinn það ekki kann nefndin að veita honum frávísun samkvæmt reglu 1.2a ef hún ákvarðar að í því hafi falist alvarleg óviðeigandi hegðun, gegn anda leiksins. (3) Að leika tveimur boltum þegar óvissa er um hvað skuli gera. Leikmaður sem er óviss um rétta aðferð við leik á holu má vítalaust ljúka holunni með tveimur boltum:
  • Leikmaðurinn verður að ákveða að leika tveimur boltum eftir að óvissan vaknar og áður en hann slær högg.
  • Leikmaðurinn ætti að velja hvor boltinn eigi að gilda ef reglurnar leyfa aðferðina með þeim bolta, með því að tilkynna það val ritara sínum eða öðrum leikmanni áður en hann slær högg.
  • Velji leikmaðurinn það ekki tímanlega er litið svo á að boltinn sem leikið er fyrst hafi verið valinn.
  • Leikmaðurinn verður að tilkynna atvikið til nefndarinnar áður en hann skilar skorkorti sínu, jafnvel þótt leikmaðurinn fái sama skor með báðum boltunum. Leikmaðurinn fær frávísun ef hann tilkynnir þetta ekki nefndinni.
  • Hafi leikmaðurinn slegið högg áður en hann ákvað að leika öðrum bolta:
    • Á þessi regla alls ekki við og skorið sem gildir er skorið með boltanum sem leikmaðurinn lék áður en hann ákvað að leika öðrum bolta.
    • Þó fær leikmaðurinn ekki víti fyrir að leika seinni boltanum.
Að leika öðrum bolta samkvæmt þessari reglu er ekki það sama og að leika varabolta samkvæmt reglu 18.3. (4) Úrskurður nefndarinnar um skor á holu. Þegar leikmaður leikur tveimur boltum samkvæmt (3), mun nefndin ákvarða skor leikmannsins á holunni, þannig:
  • Skorið með boltanum sem var valinn (hvort sem það var gert af leikmanninum eða samkvæmt reglunni) gildir, ef reglurnar leyfa þá aðferð sem var notuð með þeim bolta.
  • Leyfi reglurnar ekki aðferðina sem var notuð með þeim bolta mun skorið með hinum boltanum gilda, ef reglurnar leyfa aðferðina sem var notuð með þeim bolta.
  • Leyfi reglurnar hvoruga aðferðina sem voru notaðar með boltunum tveimur mun skorið með boltanum sem var valinn gilda (hvort sem hann var valinn af leikmanninum eða reglunni), nema um hafi verið að ræða alvarlegt brot við leik af röngum stað með þeim bolta, en í því tilviki gildir skorið með hinum boltanum.
  • Ef um var að ræða alvarlegt brot við leik af röngum stað með báðum boltunum fær leikmaðurinn frávísun.
  • Litið er fram hjá öllum höggum vegna boltans sem ekki gildir (þ.e. slegnum höggum og öllum vítahöggum sem orsökuðust beinlínis vegna leiks þess bolta) og gilda þau ekki í skori leikmannsins á holunni.
„Reglur leyfa aðferðina sem var notuð“ merkir að annaðhvort: (a) upphaflega boltanum var leikið þar sem hann lá og leikur var heimill þaðan, eða (b) boltinn sem var leikið var settur í leik með réttum aðferðum, á réttan hátt og á réttum stað samkvæmt reglunum.
20.2

Úrskurðir vegna álitamála um reglurnar

20.2a

Úrskurðir dómara

Dómari er starfsmaður sem nefndin tilnefnir til að úrskurða um staðreyndir og framfylgja reglunum. Dómarinn má leita aðstoðar frá nefndinni áður en hann úrskurðar. Leikmenn verða að fylgja úrskurði dómara um staðreyndir eða hvernig reglunum er beitt. Leikmaðurinn á engan rétt á að áfrýja úrskurði dómara til nefndarinnar, en eftir að úrskurður hefur verið kveðinn upp getur dómarinn:
  • Óskað eftir áliti annars dómara, eða
  • Vísað málinu til nefndarinnar til úrskurðar,
en þarf þess ekki. Úrskurður dómara er endanlegur, þannig að ef dómari ranglega heimilar leikmanni að brjóta reglu verður leikmanninum ekki refsað. Hins vegar, sjá reglu 20.2d varðandi hvenær rangur úrskurður dómara eða nefndarinnar er leiðréttur.
20.2b

Úrskurðir nefndarinnar

Ef enginn dómari er til staðar til að úrskurða, eða ef dómari vísar máli til úrskurðar nefndarinnar:
  • Mun nefndin úrskurða, og
  • Úrskurður nefndarinnar er endanlegur.
Komist nefndin ekki að niðurstöðu getur hún vísað málinu til reglunefndar R&A og er úrskurður hennar þá endanlegur.
20.2c

Að beita viðmiði um „ber augu“ þegar myndbandsgögn eru notuð

Þegar nefndin ákvarðar um staðreyndir við úrskurði er notkun myndbandsgagna takmörkuð við viðmið um „ber augu“:
  • Ef staðreyndirnar sem sjá má á myndbandi væru ekki sjáanlegar berum augum verður litið fram hjá myndbandsgögnunum, jafnvel þótt þau bendi til brots á reglum.
  • Hins vegar, jafnvel þótt myndbandsgögn séu hunsuð vegna viðmiðsins um „ber augu“ verður samt úrskurðað um brot á reglunum ef leikmaðurinn varð áskynja um staðreyndirnar að baki brotinu (svo sem þegar leikmaðurinn fann að kylfa hans snerti sand í glompu jafnvel þótt ekki væri hægt að sjá það með berum augum).
20.2d

Rangir úrskurðir og stjórnunarmistök

(1) Rangir úrskurðir. Rangur úrskurður hefur verið kveðinn upp ef dómari eða nefndin hafa reynt að beita reglunum en gert það á rangan hátt. Eftirfarandi eru dæmi um ranga úrskurði:
  • Að beita röngu víti eða að beita engu víti þegar það átti við,
  • Að beita reglu sem átti ekki við eða er ekki til, og
  • Að mistúlka reglu og beita henni á rangan hátt. 
Ef í ljós kemur að úrskurður dómara eða nefndarinnar er rangur verður úrskurðurinn leiðréttur ef mögulegt er samkvæmt reglunum. Ef of seint er að leiðrétta ranga úrskurðinn stendur hann. Aðhafist leikmaður eitthvað andstætt reglunum vegna eðlilegs misskilnings á fyrirmælum dómara eða nefndarinnar á meðan umferð er leikin eða á meðan leikur hefur verið stöðvaður samkvæmt reglu 5.7a (svo sem að lyfta bolta í leik þegar það má ekki samkvæmt reglunum), er það vítalaust og litið er á fyrirmælin sem rangan úrskurð. Sjá Verklag nefnda, hluta 6C (hvað nefndin ætti að gera þegar ranglega hefur verið úrskurðað). (2) Stjórnunarmistök. Stjórnunarmistök eru villur í tengslum við stjórnun keppninnar og engin tímamörk eru á leiðréttingu slíkra mistaka, jafnvel eftir að úrslit leiks eru endanleg eða eftir að höggleikskeppni er lokið. Stjórnunarmistök eru ólík röngum úrskurðum. Eftirfarandi eru dæmi um stjórnunarmistök:
  • Rangur útreikningur á jöfnu skori í höggleik,
  • Rangur útreikningur forgjafar sem leiðir til þess að rangur leikmaður vinnur keppnina, og
  • Að afhenda röngum leikmanni verðlaun eftir að hafa láðst að skrá skor sigurvegarans.
Undir þessum kringumstæðum ætti að leiðrétta mistökin og breyta ætti úrslitum keppnina til samræmis við það.
20.2e

Að veita leikmanni frávísun eftir að úrslit leiks eða keppni eru endanleg

(1) Holukeppni. Engin tímamörk eru á því að veita leikmanni frávísun samkvæmt reglu 1.2 (alvarleg óviðeigandi hegðun) eða reglu 1.3b(1) (að hunsa vísvitandi þekkt reglubrot eða víti, eða samkomulag við annan leikmann um að hunsa reglu eða sleppa víti sem þeir vita að eru viðeigandi). Þetta má jafnvel gera eftir að úrslit leiks hafa talist endanleg (sjá reglu 3.2a(5)). Varðandi hvenær nefndin mun úrskurða þegar úrskurðar er óskað eftir að úrslit leiks eru endanleg, sjá reglu 20.1b(3). (2) Höggleikur. Venjulega má ekki bæta við víti eða leiðrétta víti eftir að höggleikskeppni er lokið, sem er:
  • Þegar úrslitin eru orðin endanleg samkvæmt fyrirkomulagi sem nefndin ákveður, eða
  • Í höggleik sem undankeppni holukeppni, þegar leikmaðurinn hefur leikið af teig í fyrsta leik sínum í holukeppninni.
Þó verður að veita leikmanni frávísun, jafnvel eftir að keppninni er lokið, ef hann:
  • Skilaði lægra skori á einhverri holu en var rétt. Samt fær leikmaðurinn ekki frávísun ef ástæðan fyrir of lágu skori er að leikmaðurinn sleppti einu eða fleiri vítahöggum sem hann vissi ekki af áður en keppninni lauk (sjá reglu 3.3b(3)),
  • Vissi áður en keppninni lauk að hann var brotlegur við einhverja aðra reglu sem leiðir til frávísunar, eða
  • Sammæltist við annan leikmann um að hunsa einhverja reglu eða víti sem þeir vissu að væru viðeigandi (sjá reglu 1.3b(1)).
Nefndin má einnig veita leikmanni frávísun samkvæmt reglu 1.2 (alvarleg óviðeigandi háttsemi) eftir að keppninni lýkur.
20.2f

Leikmaður uppfyllir ekki þátttökuskilyrði

Engin tímamörk eru á að leiðrétta úrslit keppni þegar í ljós kemur að leikmaður sem tók þátt í keppninni uppfyllti ekki þátttökuskilyrði samkvæmt keppnisskilmálum. Þetta á við jafnvel eftir að úrslit leiks eru endanleg eða eftir að höggleikskeppni er lokið. Undir þessum kringumstæðum er litið svo á að leikmaðurinn hafi ekki tekið þátt í keppninni, ekki að hann hafi hlotið frávísun, og úrslitunum er breytt til samræmis við það.
20.3

Aðstæður sem reglurnar fjalla ekki um

Nefndin ætti að útkljá allar aðstæður sem reglurnar fjalla ekki um:
  • Með tilliti til allra kringumstæðna, og
  • Á þann hátt sem er eðlilegt, sanngjarnt og í samræmi við hvernig svipaðar aðstæður eru meðhöndlaðar samkvæmt reglunum.
SKOÐA FLEIRA
Regla 1Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
Tilgangur reglu: Í reglu 1 er eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins lýst: Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggu...
Lesa meira