Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum (þar á meðal óhreyfanlegum hindrunum). Hættulegar dýraaðstæður. Sokkinn bolti
Tilgangur reglu: Regla 16 fjallar um hvenær og hvernig leikmaðurinn má taka lausn án vítis með því að leika bolta frá öðrum stað, svo sem þegar truflun er vegna óeðlilegra vallaraðstæðna eða hættulegra dýraaðstæðna.
Þessar aðstæður eru ekki taldar hluti þeirrar áskorunar að leika völlinn og lausn án vítis er venjulega leyfð, annars staðar en á vítasvæði.
Oftast tekur leikmaðurinn lausn með því að láta bolta falla innan lausnarsvæðis sem ákvarðast af nálægasta stað fyrir fulla lausn.
Reglan fjallar einnig um lausn án vítis þegar bolti leikmannsins er sokkinn í eigin boltafari á almenna svæðinu.
16
Lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum (þar á meðal óhreyfanlegum hindrunum). Hættulegar dýraaðstæður. Sokkinn bolti
16.1
Óeðlilegar vallaraðstæður (þar á meðal óhreyfanlegar hindranir)
Þessi regla fjallar um vítalausa lausn sem er leyfð frá truflunum vegna dýrahola, grundar í aðgerð, óhreyfanlegra hindrana eða tímabundins vatns:
Samheiti þessara aðstæðna er óeðlilegar vallaraðstæður, en hver þeirra er skilgreind sérstaklega.
Þessi regla veitir ekki lausn frá hreyfanlegum hindrunum (annars konar lausn án vítis er heimil samkvæmt reglu 15.2a) eða vallarmarkahlutum eða hlutum vallar (engin lausn án vítis er heimil).
16.1a
Hvenær lausn er leyfð
(1) Merking truflunar vegna óeðlilegra vallaraðstæðna. Truflun er fyrir hendi þegar eitt af eftirfarandi á við:
Bolti leikmannsins snertir eða er í eða á óeðlilegum vallaraðstæðum,
Óeðlilegar vallaraðstæður trufla áþreifanlega fyrirhugaða stöðu leikmannsins eða fyrirhugað sveiflusvið, eða
Boltinn er á flötinni og óeðlilegar vallaraðstæður á eða utan flatarinnar eru í leiklínunni.
Ef óeðlilegu vallaraðstæðurnar eru svo nærri að þær trufla leikmanninn en uppfylla þó ekkert af þessum skilyrðum telst truflun ekki vera fyrir hendi samkvæmt þessari reglu.Sjá Verklag nefnda, hluta 8 og fyrirmynd staðarreglu F-6(nefndin má setja staðarreglu sem neitar lausn frá óeðlilegum vallaraðstæðum sem einungis trufla fyrirhugaða stöðu).
MYND 16.1a: HVENÆR LAUSN ER HEIMIL VEGNA ÓEÐLILEGRA VALLARAÐSTÆÐNA
Á myndinni er gert ráð fyrir rétthentum leikmanni.
Vítalaus lausn er leyfð vegna truflunar frá óeðlilegum vallaraðstæðum, þar á meðal óhreyfanlegri hindrun, ef boltinn snertir eða liggur í eða á aðstæðunum (B1), eða ef aðstæðurnar trufla svæði fyrirhugaðrar stöðu (B2) eða sveiflu.
Nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn vegna B1 er P1 og er mjög nálægt aðstæðunum.
Vegna B2 er nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn á stað P2 og er lengra frá aðstæðunum, því staða leikmannsins verður að vera alveg laus frá óeðlilegu vallaraðstæðunum.
(2) Lausn leyfð alls staðar vellinum, nema þegar bolti er innan vítasvæðis. Lausn frá truflun vegna óeðlilegra vallaraðstæðna samkvæmt reglu 16.1 er einungis leyfð þegar bæði:
Óeðlilegu vallaraðstæðurnar eru á vellinum (ekki út af), og
Boltinn liggur einhvers staðar á vellinum, annars staðar en innan vítasvæðis (þar sem eina lausn leikmannsins er samkvæmt reglu 17).
(3) Engin lausn ef augljóslega óraunsætt. Engin lausn er veitt samkvæmt reglu 16.1:
Ef það væri augljóslega óraunsætt að leika boltanum þar sem hann liggur, vegna einhvers sem leikmanninum er ekki heimilt að taka vítalausa lausn frá (til dæmis ef leikmaðurgetur ekki slegið högg vegna þess hvar boltinn liggur inni í runna), eða
Ef truflunin er eingöngu vegna þess að leikmaður velur kylfu, stöðu, sveiflu eða leikátt sem er augljóslega óraunsætt miðað við kringumstæður.
Sjá Verklag nefnda, hluta 8 og fyrirmynd staðarreglu F-23(nefndin má setja staðarreglu sem leyfir lausn án vítis vegna truflunar frá tímabundnum óhreyfanlegum hindrunum, á eða utan vallarins).
16.1b
Lausn vegna bolta á almenna svæðinu
Ef bolti leikmanns er á almenna svæðinu og truflun er vegna óeðlilegra vallaraðstæðna á vellinum má leikmaðurinn taka lausn án vítis, með því að láta upphaflega boltann eða annan bolta falla á þessu lausnarsvæði (sjá reglu 14.3):
Viðmiðunarstaður:Nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn á almenna svæðinu.
Stærð lausnarsvæðisins, mæld frá viðmiðunarstað: Ein kylfulengd, þó með eftirfarandi takmörkunum:
Takmarkanir á staðsetningu lausnarsvæðisins:
Það verður að vera á almenna svæðinu,
Það má ekki vera nær holunni en viðmiðunarstaðurinn, og
Full lausn verður að fást frá öllum truflunum vegna óeðlilegu vallaraðstæðnanna.
MYND 16.1b: VÍTALAUS LAUSN FRÁ ÓEÐLILEGUM VALLARAÐSTÆÐUM Á ALMENNA SVÆÐINU
Vítalaus lausn er leyfð þegar boltinn er á almenna svæðinu og truflun er vegna óeðlilegra vallaraðstæðna.
Ákvarða ætti nálægasta staðinn fyrir fulla lausn og láta verður bolta falla innan lausnarsvæðisins og leika boltanum síðan þaðan.
Lausnarsvæðið er innan einnar kylfulengdar frá viðmiðunarstaðnum, er ekki nær holunni en viðmiðunarstaðurinn og verður að vera á almenna svæðinu.
Þegar lausn er tekin verður leikmaðurinn að fá fulla lausn frá allri truflun vegna óeðlilegu vallaraðstæðnanna.
16.1c
Lausn vegna bolta í glompu
Ef bolti leikmanns er í glompu og truflun er vegna óeðlilegra vallaraðstæðna á vellinum má leikmaðurinn annaðhvort taka lausn án vítis samkvæmt (1) eða lausn gegn víti samkvæmt (2):(1) Lausn án vítis: Leikið úr glompunni. Leikmaðurinn má taka lausn án vítis samkvæmt reglu 16.1b, nema að
Nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn og lausnarsvæðið verða að vera í glompunni.
Ef enginn nálægasti staður fyrir fulla lausn er í glompunni má leikmaðurinn samt taka þessa lausn, með því að nota stað fyrir mestu mögulegu lausn í glompunni sem viðmiðunarstað.
MYND 16.1c: LAUSN FRÁ ÓEÐLILEGUM VALLARAÐSTÆÐUM Í GLOMPU
Myndin gerir ráð fyrir rétthentum leikmanni.
Þegar truflun er vegna óeðlilegra vallaraðstæðna í glompu, fæst vítalaus lausn innan glompunnar samkvæmt reglu 16.1b eða aftur á línu lausn utan glompunnar gegn einu vítahöggi.
Lausn utan glompunnar er tekin með því að láta bolta falla á stað þar sem staðsetning upphaflega boltans er í beinni línu frá staðnum að holunni.
Lausnarsvæðið er ein kylfulengd í allar áttir frá staðnum þar sem bolti snerti fyrst jörðu eftir að vera látinn falla.
(2) Lausn gegn víti: Leikið utan glompunnar (aftur-á-línu lausn). Gegn einu vítahöggi má leikmaðurinn láta upphaflega boltann eða annan bolta falla (sjá reglu 14.3) utan glompunnar þannig að upphafleg staðsetning boltans sé á milli holunnar og staðarins þar sem boltinn er látinn falla (án takmarkana á hversu langt aftur á bak boltinn er látinn falla). Staðurinn sem boltinn snertir fyrst á jörðinni þegar hann er látinn falla ákvarðar lausnarsvæði sem er ein kylfulengd í allar áttir, en með þessum takmörkum:
Takmarkanir á staðsetningu lausnarsvæðisins:
Það má ekki vera nær holunni en staðsetning upphaflega boltans, og
Það má vera á hvaða svæði vallarins sem er nema í sömu glompu, en
Það verður að vera á sama svæði vallarins og boltinn snerti fyrst þegar hann var látinn falla.
16.1d
Lausn vegna bolta á flötinni
Ef bolti leikmanns er á flötinni og truflun er vegna óeðlilegra vallaraðstæðna á vellinum má leikmaðurinn taka lausn án vítis með því að leggja upphaflega boltann eða annan bolta á nálægasta stað fyrir fulla lausn, með því að nota aðferðir við að leggja bolta aftur samkvæmt reglum 14.2b(2) og 14.2e.
Nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn verður að vera annaðhvort á flötinni eða á almenna svæðinu.
Ef enginn slíkur nálægasti staður fyrir fulla lausn er fyrir hendi má leikmaðurinn samt taka þessa lausn án vítis, með því að nota stað fyrir mestu mögulegu lausn sem viðmiðunarstað. Sá staður verður að vera annaðhvort á flötinni eða á almenna svæðinu.
MYND 16.1d VÍTALAUS LAUSN FRÁ ÓEÐLILEGUM VALLARAÐSTÆÐUM Á FLÖTINNI
Á myndinni er gert ráð fyrir örvhentum leikmanni.
Þegar boltinn er á flötinni og truflun er vegna óeðlilegran vallaraðstæðna, má taka vítalausa lausn með því að leggja bolta á nálægasta staðinn fyrir fulla lausn.
Nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn verður að vera annaðhvort á flötinni eða á almenna svæðinu.
16.1e
Lausn vegna bolta sem er í eða á óeðlilegum vallaraðstæðum en hefur ekki fundist
Ef bolti leikmanns hefur ekki fundist og það er vitað eða nánast öruggt að boltinn stöðvaðist í eða á óeðlilegum vallaraðstæðum á vellinum má leikmaðurinn nota þessa lausnaraðferð í stað þess að taka fjarlægðarlausn:
Leikmaðurinn má taka lausn samkvæmt reglu 16.1b, c eða d, með því að nota áætlaða staðinn þar sem boltinn skar síðast jaðar óeðlilegu vallaraðstæðnanna á vellinum sem staðsetningu boltans, í þeim tilgangi að finna nálægasta staðinn fyrir fulla lausn.
Þegar leikmaðurinn hefur sett annan bolta í leik til að taka lausn á þennan hátt:
Er upphaflegi boltinn ekki lengur í leik og ekki má leika honum.
Þetta gildir jafnvel þótt boltinn finnist svo á vellinum innan þriggja mínútna leitartímans (sjá reglu 6.3b).
Hins vegar, ef hvorki er vitað né nánast örugg að boltinn hafi stöðvast í eða á óeðlilegum vallaraðstæðum og boltinn er týndur, verður leikmaðurinn að taka fjarlægðarlausn samkvæmt reglu 18.2.
16.1f
Taka verður lausn vegna truflunar frá bannreit innan óeðlilegra vallaraðstæðna
Í eftirfarandi tilfellum má ekki leika boltanum þar sem hann liggur:(1) Lausn þegar bolti er innan bannreits hvar sem er á vellinum nema innan vítasvæðis. Ef bolti leikmannsins er innan bannreits í eða á óeðlilegum vallaraðstæðum á almenna svæðinu, í glompu eða á flötinni:
Bannreitur á almenna svæðinu. Leikmaðurinn verður að taka lausn án vítis samkvæmt reglu 16.1b.
Bannreitur í glompu. Leikmaðurinn verður að taka lausn án vítis eða gegn víti samkvæmt reglu 16.1c(1) eða (2).
Bannreitur á flötinni. Leikmaðurinn verður að taka lausn án vítis samkvæmt reglu 16.1d.
(2) Lausn þegar bannreitur truflar stöðu eða sveiflu vegna bolta sem er á vellinum, annars staðar en innan vítasvæðis. Ef bolti leikmanns er utan bannreits og er á almenna svæðinu, í glompu eða á flötinni, og bannreitur (hvort sem er í óeðlilegum vallaraðstæðum eða innan vítasvæðis) truflar svæði fyrirhugaðrar stöðu eða svæði fyrirhugaðrar sveiflu verður leikmaðurinn annaðhvort að:
Taka lausn, ef slíkt er leyft samkvæmt reglu 16.1b, c eða d, eftir því hvort boltinn er á almenna svæðinu, í glompu eða á flötinni, eða
Taka lausn vegna ósláanlegs bolta samkvæmt reglu 19.
Varðandi hvað eigi að gera ef truflun er vegna bannreits þegar bolti er á vítasvæði, sjá reglu 17.1e.Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 16.1: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a..
16.2
Hættulegar dýraaðstæður
16.2a
Hvenær lausn er leyfð
„Hættulegar dýraaðstæður“ eru fyrir hendi þegar hættulegt dýr (svo sem eitraðir snákar, býflugur sem stinga, krókódílar, eldmaurar eða birnir) sem eru nærri bolta gætu valdið leikmanninum alvarlegum líkamlegum áverkum ef hann þyrfti að leika boltanum þar sem hann liggur.Leikmaður má taka lausn samkvæmt reglu 16.2b frá truflun vegna hættulegra dýraaðstæðna, hvar svo sem bolti hans er á vellinum.Þessi regla nær ekki til annarra aðstæðna á vellinum sem gætu valdið líkamlegum skaða (svo sem vegna kaktusa).
16.2b
Lausn vegna hættulegra dýraaðstæðna
Þegar truflun er vegna hættulegra dýraaðstæðna:(1) Ef bolti er annars staðar en innan vítasvæðis. Leikmaðurinn má taka lausn samkvæmt reglu 16.1b, c eða d, eftir því hvort boltinn liggur á almenna svæðinu, í glompu eða á flötinni.(2) Þegar bolti er innan vítasvæðis. Leikmaðurinn má taka lausn án vítis eða lausn gegn víti:
Lausn án vítis: Leikið innan vítasvæðis. Leikmaðurinn má taka vítalausa lausn samkvæmt reglu 16.1b, ennálægasti staðurinn fyrir fulla lausn og lausnarsvæðið verða að vera innan vítasvæðisins.
Lausn gegn víti: Leikið utan vítasvæðis.
L eikmaðurinn má taka lausn gegn víti samkvæmt reglu 17.1d.
Ef truflun er vegna hættulegra dýraaðstæðna þar sem boltanum væri leikið eftir að þessi lausn gegn víti er tekin utan vítasvæðisins, má leikmaðurinn taka frekari lausn, án frekara vítis, samkvæmt (1).
(3) Engin vítalaus lausn ef augljóslega óraunsætt. Engin vítalaus lausn er veitt samkvæmt reglu 16.2b:
Ef það væri augljóslega óraunsætt að leika boltanum þar sem hann liggur, vegna einhvers sem leikmanninum er ekki heimilt að taka vítalausa lausn frá (til dæmis ef leikmaðurinn getur ekki slegið högg vegna þess hvar boltinn liggur inni í runna).
Ef truflunin er eingöngu vegna þess að leikmaður velur kylfu, stöðu, sveiflu eða leikátt sem er augljóslega óraunsætt miðað við kringumstæður.
Með tilliti til þessarar reglu merkir nálægasti staðurinn fyrir fulla lausn nálægasta stað (ekki nær holunni) þar sem hættulegar dýraaðstæður eru ekki fyrir hendi.Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 16.2: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a..
16.3
Sokkinn bolti
16.3a
Hvenær lausn er leyfð
(1) Bolti þarf að vera sokkinn á almenna svæðinu. Lausn er veitt samkvæmt reglu 16.3b, því aðeins að bolti leikmanns sé sokkinn á almenna svæðinu.
Lausn er ekki veitt samkvæmt þessari reglu ef boltinn er sokkinn annars staðar en á almenna svæðinu.
Hins vegar ef boltinn er sokkinn á flötinni má leikmaðurinn merkja staðsetningu boltans og lyfta boltanum og hreinsa hann, lagfæra skemmdina eftir niðurkomu boltans og leggja boltann aftur á upphaflegan stað (sjá reglu 13.1c(2)).
Undantekningar – Þegar lausn er ekki veitt vegna bolta sem er sokkinn á almenna svæðinu: Lausn er ekki veitt samkvæmt reglu 16.3b:
Ef boltinn er sokkinn í sandi innan almenna svæðisins, þar sem gras er ekki slegið í brautarhæð eða neðar, eða
Ef það væri augljóslega óraunsætt að leika boltanum þar sem hann liggur, vegna einhvers sem leikmanninum er ekki heimilt að taka vítalausa lausn frá (til dæmis ef leikmaðurinn getur ekki slegið högg vegna þess hvar boltinn liggur inni í runna).
(2) Að ákvarða hvort bolti er sokkinn. Bolti leikmanns er því aðeins sokkinn ef:
Hann er í eigin boltafari eftir síðasta högg leikmannsins, og
Hluti boltans er neðan yfirborðs jarðar.
Ef leikmaðurinn er óviss um hvort boltinn er í eigin boltafari eða í boltafari eftir annan bolta má leikmaðurinn líta svo á að boltinn sé sokkinn ef skynsamlegt er að álykta út frá fyrirliggjandi upplýsingum að boltinn sé í eigin boltafari.Bolti er ekki sokkinn ef hann er neðan yfirborðs jarðar sem afleiðing af einhverju öðru en síðasta höggi leikmannsins, svo sem þegar:
Boltanum er ýtt niður í jörðina með því að einhver stígur á hann,
Boltanum er slegið beint niður í jörðina án þess að hann takist nokkurn tíma á loft, eða
Boltinn var látinn falla við að taka lausn samkvæmt reglu.
MYND 16.3a: HVENÆR BOLTI ER SOKKINN
16.3b
Lausn vegna sokkins bolta
Þegar bolti leikmanns er sokkinn á almenna svæðinu og lausn er heimil samkvæmt reglu 16.3a má leikmaðurinn taka lausn án vítis með því að láta upphaflega boltann eða annan bolta falla á þessu lausnarsvæði (sjá reglu 14.3):
Viðmiðunarstaður: Staðurinn á almenna svæðinu rétt fyrir aftan staðinn þar sem boltinn er sokkinn.
Stærð lausnarsvæðisins, mæld frá viðmiðunarstað: Ein kylfulengd, þó með eftirfarandi takmörkunum:
Takmarkanir á staðsetningu lausnarsvæðisins:
Það verður að vera á almenna svæðinu, og
Það má ekki vera nær holunni en viðmiðunarstaðurinn.
Sjá Verklag nefnda, hluta 8 og fyrirmynd staðarreglu F-2(nefndin má setja staðarreglu sem leyfir einungis lausn vegna sokkins bolta ef boltinn er á svæði sem er slegið í brautarhæð eða neðar).Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 16.3: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
MYND 16.3b: VÍTALAUS LAUSN VEGNA SOKKINS BOLTA
Þegar bolti er sokkinn á almenna svæðinu er vítalaus lausn leyfð.
Viðmiðurnarstaðurinn fyrir lausnina er rétt aftan við þar sem boltinn er sokkinn.
Lausnarsvæðið er innan einnar kylfulengdar frá viðmiðunarstaðnum, er ekki nær holunni en viðmiðunarstaðurinn og verður að vera á almenna svæðinu.
Láta verður bolta falla innan lausnarsvæðisins og boltinn verður að stöðvast þar.
16.4
Að lyfta bolta til að athuga hvort hann er í aðstæðum þar sem lausn er leyfð
Ef leikmaður hefur ástæðu til að ætla að bolti hans liggi í aðstæðum þar sem lausn án vítis er leyfð samkvæmt reglu 15.2, 16.1 eða 16.3, en getur ekki ákvarðað það án þess að lyfta boltanum:
Má leikmaðurinn lyfta boltanum til að athuga hvort lausn er leyfð, en:
Fyrst verður að merkja, staðsetningu boltans og ekki má hreinsa boltann (nema á flötinni) (sjá reglu 14.1).
Ef leikmaðurinn lyftir boltanum án þess að hafa ástæðu til að ætla að lausn án vítis sé leyfð (nema á flötinni, þar sem leikmaðurinn má lyfta boltanum samkvæmt reglu 13.1b) fær hann eitt vítahögg.Ef lausn er leyfð og leikmaðurinn tekur lausn er það vítalaust þótt leikmaðurinn hafi ekki merkt legu boltans áður en honum var lyft eða þótt hann hafi hreinsað boltann.Ef lausn er ekki leyfð, eða ef leikmaðurinn velur að taka ekki lausn sem er þó leyfð:
Fær leikmaðurinn eitt vítahögg ef hann merkti ekki staðsetningu boltans áður en hann lyfti honum eða hreinsaði boltann þegar það mátti ekki, og
Leggja verður boltann aftur á sinn upphaflega stað (sjá reglu 14.2).
Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 16.4: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
Tilgangur reglu Regla 4 nær yfir útbúnaðinn sem leikmenn mega nota þegar umferð er leikin. Vegna þess grundvallaratriðis að golf er krefjandi leikur þ...
Tilgangur reglu: Regla 5 fjallar um hvernig umferð er leikin, svo sem hvar og hvenær leikmaður má æfa sig á vellinum fyrir umferð eða á meðan umferð e...
Tilgangur reglu: Regla 6 fjallar um hvernig leika á holu, svo sem sérstöku ákvæðin um hvernig leikur hefst á holu, kröfuna um að sama bolta sé leikið ...
Tilgangur reglu: Regla 8 lýsir einu grundvallaratriði leiksins: „Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum". Þegar bolti leikmannsins stöðvast verður l...
Tilgangur reglu: Regla 10 fjallar um hvernig eigi að undirbúa og slá högg, þar á meðal um ráðleggingu og aðra aðstoð sem leikmaðurinn má þiggja frá öð...
Tilgangur reglu: Regla 11 fjallar um hvað eigi að gera ef bolti leikmannsins er á hreyfingu og hittir einstakling, dýr, útbúnað eða annað á vellinum. ...
Tilgangur reglu: Regla 12 er sérregla fyrir glompur, sem eru sérstaklega útbúin svæði til að reyna á hæfni leikmannsins við að leika bolta úr sandi. T...
Tilgangur reglu: Regla 13 er sérregla um flatir. Flatir eru sérstaklega gerðar til að leika boltanum eftir jörðinni og einnig er flaggstöng í holunni ...
Tilgangur reglu: Regla 14 fjallar um hvenær og hvernig leikmaðurinn má merkja staðsetningu kyrrstæðs bolta, lyfta boltanum og hreinsa hann og hvernig ...
Tilgangur reglu: Regla 17 er sérregla fyrir vítasvæði, sem eru vatnasvæði eða önnur svæði skilgreind af nefndinni, þar sem boltar týnast oft eða eru ó...
Tilgangur reglu: Regla 18 fjallar um fjarlægðarlausn gegn víti. Ef bolti er týndur utan vítasvæðis eða stöðvast út af er rofin sú nauðsynlega framvind...
Tilgangur reglu: Í reglu 19 eru útskýrðir þeir möguleikar sem leikmaðurinn hefur varðandi ósláanlegan bolta. Leikmaðurinn getur valið á milli nokkurra...
Tilgangur reglu: Regla 20 fjallar um hvað leikmenn ættu að gera þegar spurningar vakna um reglurnar á meðan umferð er leikin, þar á meðal ferlin (sem ...
Tilgangur reglu: Regla 21 fjallar um fjögur önnur leikform í keppni einstaklinga, þar á meðal þrjú form höggleiks þar sem skor ákvarðast á annan hátt ...
Tilgangur reglu: Regla 22 fjallar um fjórmenning (sem er ýmist leikinn sem holukeppni eða höggleikur), þar sem tveir samherjar keppa saman sem lið með...
Tilgangur reglu: Regla 23 fjallar um fjórleik (sem er ýmist leikinn sem holukeppni eða höggleikur), þar sem samherjar keppa sem lið og hvor samherji l...
Tilgangur reglu: Regla 24 fjallar um sveitakeppnir (sem leiknar eru annaðhvort sem holukeppni eða höggleikur), þar sem margir leikmenn eða lið keppa s...
Tilgangur reglu: Í reglu 25 er lýst breytingum á ákveðnum golfreglum til að gefa leikmönnum með tilteknar fatlanir kost á að keppa á jafnréttisgrundve...