Print Section
19
Ósláanlegur bolti
Tilgangur reglu: Í reglu 19 eru útskýrðir þeir möguleikar sem leikmaðurinn hefur varðandi ósláanlegan bolta. Leikmaðurinn getur valið á milli nokkurra kosta, oftast gegn einu vítahöggi, til að losna úr erfiðum aðstæðum hvar sem er á vellinum (nema innan vítasvæðis).
19
Ósláanlegur bolti
19.1

Leikmaður má taka ósláanlega lausn hvar sem er, nema innan vítasvæðis

Einungis leikmaðurinn getur ákveðið að dæma bolta sinn ósláanlegan, með því að taka lausn gegn víti samkvæmt reglu 19.2 eða 19.3. Lausn vegna ósláanlegs bolta er leyfð hvar sem er á vellinum nema innan vítasvæðis. Ef bolti er ósláanlegur innan vítasvæðis er lausn gegn víti samkvæmt reglu 17 eini lausnarmöguleiki leikmannsins.
19.2

Lausnarmöguleikar vegna ósláanlegs bolta á almenna svæðinu eða á flötinni

Leikmaður má taka lausn vegna ósláanlegs bolta samkvæmt einum þriggja kosta í reglu 19.2a, b eða c, alltaf gegn einu vítahöggi.
  • Leikmaðurinn má taka fjarlægðarlausn samkvæmt reglu 19.2a, jafnvel þótt upphaflegi boltinn hafi ekki fundist eða sé ekki þekktur.
  • Hins vegar, til að taka aftur-á-línu-lausn samkvæmt reglu 19.2b eða hliðarlausn samkvæmt reglu 19.2c verður leikmaðurinn að vita staðsetningu upphaflega boltans.
19.2a

Fjarlægðarlausn

Leikmaðurinn má leika upphaflega boltanum eða öðrum bolta frá staðnum þar sem síðasta högg var slegið (sjá reglu 14.6).
19.2b

Aftur-á-línu lausn

Leikmaðurinn má láta upphaflega boltann eða annan bolta falla (sjá reglu 14.3) aftan við staðsetningu upphaflega boltans, þannig að sú staðsetning upphaflega boltans sé á milli holunnar og staðarins þar sem boltinn er látinn falla (án takmarkana á hversu langt aftur á bak boltinn er látinn falla). Staðurinn sem boltinn snertir fyrst á jörðinni þegar hann er látinn falla ákvarðar lausnarsvæði sem er ein kylfulengd í allar áttir, en með þessum takmörkum:
  • Takmarkanir á staðsetningu lausnarsvæðisins:
    • Það má ekki vera nær holunni en staðsetning upphaflega boltans, og
    • Það má vera á hvaða svæði vallarins sem er, en
    • Verður að vera á sama svæði vallarins og boltinn snerti fyrst þegar hann var látinn falla.
19.2c

Hliðarlausn

Leikmaðurinn má láta upphaflega boltann eða annan bolta falla á þessu hliðarlausnarsvæði (sjá reglu 14.3):
  • Viðmiðunarstaður: Staðsetning upphaflega boltans. En ef boltinn liggur ofan við jörðina, svo sem í tré, er viðmiðunarstaðurinn á jörðinni, beint undir boltanum. 
  • Stærð lausnarsvæðisins, mæld frá viðmiðunarstað: Tvær kylfulengdir, þó með eftirfarandi takmörkunum:
  • Takmarkanir á staðsetningu lausnarsvæðisins:
    • Það má ekki vera nær holunni en viðmiðunarstaðurinn, og
    • Það má vera á hvaða svæði vallarins sem er, en
    • Ef fleiri en eitt svæði vallarins eru innan tveggja kylfulengda frá viðmiðunarstaðnum verður boltinn að stöðvast á lausnarsvæðinu á sama svæði vallarins og boltinn snerti fyrst þegar hann var látinn falla á lausnarsvæðinu.
Sjá reglu 25.4m (reglu 19.2c er breytt fyrir leikmenn sem nota hreyfihjálpartæki á hjólum, þannig að hliðar lausnarsvæðið er stækkað í fjórar kylfulengdir). Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað, andstætt reglu 19.2: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a.
19.3

Lausnarmöguleikar vegna ósláanlegs bolta í glompu

19.3a

Venjulegir lausnarmöguleikar (eitt vítahögg)

Þegar bolti leikmanns er í glompu:
  • Má leikmaðurinn taka lausn vegna ósláanlegs bolta gegn einu vítahöggi samkvæmt einhverjum þeirra kosta sem fram koma í reglu 19.2, nema að:
  • Boltann þarf að láta falla og hann þarf að stöðvast innan glompunnar, ef leikmaðurinn tekur aftur-á-línu lausn (sjá reglu 19.2b) eða hliðarlausn (sjá reglu 19.2c).
19.3b

Viðbótar lausnarmöguleiki (tvö vítahögg)

Þessu til viðbótar, þegar bolti leikmanns er í glompu, má leikmaðurinn, gegn samtals tveimur vítahöggum, taka aftur-á-línu-lausn utan glompunnar samkvæmt reglu 19.2b. Sjá reglu 25.4n (vítið fyrir viðbótar aftur-á-línu lausnina í reglu 19.3b er minnkað í eitt vítahögg fyrir leikmenn sem nota hreyfihjálpartæki á hjólum). Víti fyrir að leika bolta frá röngum stað , andstætt reglu 19.3: Almennt víti samkvæmt reglu 14.7a. .
EXPLORE MORE
Rule 1Leikurinn, hegðun leikmannsins og reglurnar
Tilgangur reglu: Í reglu 1 er eftirfarandi undirstöðuatriðum leiksins lýst: Leiktu völlinn eins og þú kemur að honum og boltanum eins og hann liggu...
Read more